Barcelona tryggði sér í kvöld spænska konungsbikarinn með öruggum 3-0 sigri á Athletic Bilbao í úrslitaleiknum. Þetta var síðasti leikur Pep Guardiola með Barcelona-liðið.
Pedro kom Barcelona yfir eftir aðeins þriggja mínútna leik og Börsungar litu aldrei til baka.
Messi kom Barca í 2-0 eftir 20 mínútur og Pedro skoraði aftur fimm mínútum síðar.
3-0 í hálfleik og ballið búið. Bilbao náði aldrei að ógna af neinu viti í síðari hálfleik og Börsungar fögnuðu innilega í leikslok.
Smávægileg sárabót fyrir Börsunga sem urðu að horfa á eftir spænska meistaratitlinum til Real Madrid og Meistaradeildartitlinum til Chelsea.

