Fótbolti

Heimsmeistarinn í 400 metra hlaupi vill ekki sjá fótbolta á ÓL

Margir breskir íþróttamenn eru ekkert allt of hrifnir af því að Bretland ætli að tefla fram fótboltaliði á Ólympíuleikunum næsta sumar. Þeir óttast að fótboltaliðið muni skyggja á árangur annarra breskra íþróttamanna á leikunum.

Þeirra á meðal er Walesverjinn Dai Greene en hann er heimsmeistari í 400 metra hlaupi.

"Mér finnst að fótbolti eigi ekkert að vera á Ólympíuleikunum yfir höfuð. Ég vona að þessar stórstjörnur í fótboltanum skyggi ekki á íþróttamennina sem hafa æft í fjögur ár fyrir þetta eina mót. Þeir þurfa bara að æfa sérstaklega í fjórar vikur fyrir mótið. Það finnst mér furðulegt," sagði Greene.

"Þessir strákar alast upp við að vilja vinna ensku úrvalsdeildina, Meistaradeildina og HM. Þeir alast ekki upp við að vilja verða Ólympíumeistarar. Þeir vilja vera bestir í fótbolta.

"Það er ekki aðalmarkmiðið í fótbolta að verða Ólympíumeistari og þess vegna finnst mér ekki nauðsynlegt að fótbolti sé með á leikunum. Í það minnsta ekki fyrir atvinnumenn.

"Ég held að flestir keppendur á ÓL séu sammála mér. Fótbolti hefur ekkert að gera á Ólympíuleikana. Ég vildi óska þess að Bretland væri ekki að senda lið til keppni."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×