Enski boltinn

WBA fær Foster að láni frá Birmingham

Sigurður Elvar Þórólfsson skrifar
Ben Foster fær tækifæri til þess að leika í ensku úrvalsdeildinni á næstu leiktíð þrátt fyrir að hafa upplifað fall með Birmingham í lokaumferðinn s.l. vor. Markvörðurinn verður lánaður til grannaliðsins WBA sem einnig er staðsett í Birmingham og er lánssamningurinn til eins árs. Birmingham fær Boaz Myhill í staðinn frá WBA.

Scott Carson, sem varið hefur mark WBA undanfarin misseri, var á dögunum seldur til tyrkneska liðsins Bursaspor. Samningurinn er með þeim hætti að Birmingham getur ekki kallað Foster til baka úr lánsvistinni allt næsta keppnistímabil.

Roy Hodgson er knattspyrnustjóri WBA en hann tók við liðinu skömmu eftir að hann var rekinn frá Liverpool. Undir stjórn Hodgson náði WBA að bjarga sér frá falli og gott betur en liðið endaði í um miðja deild eftir afleitt gengi framan af tímabilinu.

Foster lék alla 38 leikina með Birmingham í deildarkeppninni á s.l.tímabili en hann kom til liðsins frá Manchester United. Birmingham sigraði sem kunnugt er í deildabikarkeppninni og leikur liðið í Evrópudeild UEFA.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×