Fótbolti

Ronaldinho ætlar að spila sig inn á HM með Flamengo

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ronaldinho var ánægður á blaðamannafundinum í Ríó.
Ronaldinho var ánægður á blaðamannafundinum í Ríó. Mynd/AP
Brasilíski knattspyrnusnillingurinn Ronaldinho er kominn til Brasilíu þar sem hann mun spila með Flamengo sem er eitt allra vinsælasta félag Brasilíu. Ronaldinho hefur spilað undanfarin tíu ár í Evrópu nú síðast með AC Milan á Ítalíu en ákvað að snúa aftur heim.

Ronaldinho gerði fjögurra ára samning við Flamengo. Hann segir að stuðningsmenn liðsins geti búist við miklu af honum og það sé markmið hans að komast í HM-hóp Brasilíu fyrir heimsmeistarakeppnina árið 2014 sem fer einmitt fram í Brasilíu.

Ronaldinho spilar væntanlega sinn fyrsta leik með Flamengo í febrúar en hann fékk lítið að spila með AC Milan síðustu mánuði ársins 2010 eftir að hafa verið í lykilhlutverki tímabilið á undan.

Ronaldinho var kosinn besti knattspyrnumaður heims tvö ár í röð þegar hann lék með spænska liðinu Barcelona en hefur síðan þá verið gagnrýndur fyrir að einbeita sér frekar af ljúfa lífinu í stað þess að reyna að halda sér í almennilegu formi. Það efast hinsvegar enginn um hæifleika kappans þegar hann er í stuði.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×