Enski boltinn

Eric Cantona líkir Sir Alex Ferguson við Gandhi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Eric Cantona í leik með Manchester United.
Eric Cantona í leik með Manchester United. Mynd/Nordic Photos/Getty
Eric Cantona, fyrrum leikmaður Manchester United, býst við því að félagið eigi eftir að vera í vandræðum þegar Sir Alex Ferguson hættir sem knattspyrnustjóri félagsins. Cantona mærði fyrrum stjóra sinn mikið í viðtali við Daily Mail.

„Það eina sem ég vil segja er að ég tel að Ferguson verði áfram stjóri næstu árin en eftir það munu vandamálin hrannast upp," sagði Eric Cantona.

„Í dag er það eins og að hafa Gandhi með sér í liði þegar þú ert með Ferguson í stjórastólnum. Hann er snillingur," sagði Cantona.

„Hann er búinn að vinna með svo mörgum kynslóðum núna. Hann er orðinn sjötugur en er að vinna með 18 ára strákum og hann virðist ná til leikmanna á öllum aldri," sagði Cantona og lofaði sinn gamla stjóra fyrir það hvernig hann tekur á stórum persónuleikum eins og honum sjálfum.

„Ferguson vinnur mikið í andlega þættinum með þessum stóru persónuleikum og það er mjög mikilvægt. Það virkaði hundrað prósent hjá mér. Ég sætti mig við allt því hann gaf mér frjálsræði inn á vellinum. Hann leyfði mér líka á fá sjöuna sem var mikilvægt fyrir mig þótt að ég hafi ekki áttað mig á sögulegu mikilvægi númersins strax," sagði Cantona.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×