Svíar tryggðu sér sæti í úrslitakeppni EM í fótbolta næsta sumar með því að vinna 3-2 sigur á Hollendingum í Stokkhólmi í kvöld. Hollendingar voru búnir að tryggja sér sigur í riðlinum og sæti á EM en sigur Svía í kvöld þýðir að Svíþjóð er með bestan árangur þeirra þjóða sem enduðu í 2. sæti í riðlinum níu.
Holland var búið að vinna níu fyrstu leiki sína í undankeppninni en Svíar létu það ekki stoppa sig í kvöld.
Kim Källström kom Svíum í 1-0 eftir fjórtán mínútur en Klaas-Jan Huntelaar jafnaði leikinn á 23. mínútu. Dirk Kuyt kom Hollandi í 2-1 á 50. mínútu en Svíar svöruðu með tveimur mörkum á tveimur mínútum.
Það fyrra skoraði Sebastian Larsson á 52. mínútu og það síðara skoraði Ola Toivonen mínútu síðar.
Svíar léku þennan leik án stórstjörnunnar Zlatan Ibrahimović en liðið hélt því áfram þeirri hefð sinni að vinna leiki án hans.
