Enski boltinn

Garry O'Connor leikmaðurinn sem neytti kókaíns

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Garry O'Connor í leik með Birmingham í júlí árið 2010.
Garry O'Connor í leik með Birmingham í júlí árið 2010. Nordic Photos / Getty Images
Knattspyrnumaðurinn sem mun hafa fallið á lyfjaprófi fyrir að neyta kókaíns heitir Garry O'Connor. Hann er 28 ára gamall Skoti sem leikur með Hibernian í Skotlandi.

Í gær spurðist það út að ónefndur knattspyrnumaður, sem hafði gengið kaupum og sölum fyrir meira en milljón punda, hafi fallið á lyfjaprófi fyrir kókaínneyslu og að hann hafi verið seldur til nýs félags sem vissi ekkert um málið.

Talið er að O'Connor hafi fallið á umræddu lyfjaprófi þegar hann var á mála hjá Birmingham leiktíðina 2009-2010 en hann var frá allt það tímabil vegna meiðsla.

Þá var reyndar búið að selja hann fyrir stórar upphæðir. Árið 2006 var hann seldur frá Hibernian til Lokomotiv Moskvu fyrir 1,6 milljón punda og ári síðar keypti Birmingham fyrir 2,7 milljónir punda.

O'Connor fór síðar án greiðslu til Barnsley en er nú kominn aftur til Hibernian sem er hans uppeldisfélag. Forráðamenn Barnsley segja að þeir hefðu aldrei samið við O'Connor hefðu þeir vitað af umræddu lyfjaprófi.

Þátturinn gerði mikið úr þeirri staðreynd að enska knattspyrnusambandið heldur í mörgum tilfellum nöfnum þeirra leyndum sem falla á lyfjaprófi fyrir neyslu eiturlyfja. Er fullyrt í enskum fjölmiðlum að það sé gert til að vernda leikmennina, sem eru í flestum tilfellum ungir, og gefa þeim þar með tækifæri til að koma sér aftur á rétta braut í lífinu.

Öllum þeim sem falla á lyfjaprófi er þó refsað í samræmi við alþjóðlegar reglur.

O'Connor komst fyrst í skoska landsliðið aðeins átján ára gamall og á alls að baki sextán landsleiki.

Guðlaugur Victor Pálsson, leikmaður U-21 landsliðs Íslands, er á mála hjá Hibernian.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×