Gunnleifur Gunnleifsson markvörður íslenska landsliðsins er meiddur í baki og óvíst hvort hann getur verið með á lokaæfingunni í kvöld. Ísland mætir Kýpur á morgun í undankeppni Evrópumótsins í knattspyrnu en Ísland er án stiga í riðlinum eftir þrjá leiki en Kýpur er með eitt stig.
Gunnleifur vaknaði í morgunn stífur í baki og átti erfitt með að hreyfa sig. Hann sagði í samtali við Vísi að það kæmi í ljós síðar í dag hvort hann verður leikfær á morgun.
"Ég hef aðeins misst af tveimur leikjum vegna meiðsla frá 1999 og hef tröllatrú á því að ég verði orðinn góður síðar í dag". Ég þarf að láta Stefán Stefánsson sjúkraþjálfara skoða mig og ef einhver getur lagað þetta þá er það hann".

