Fótbolti

Kewell náði loksins samningum og spilar í fyrsta sinn í Ástralíu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Harry Kewell.
Harry Kewell. Mynd/Nordic Photos/Getty
Harry Kewell, fyrrum leikmaður Leeds og Liverpool í ensku úrvalsdeildinni, er búinn að gera þriggja ára samning við Melbourne Victory í áströlsku deildinni.

Kewell, sem er orðinn 32 ára, lék síðast með Galatasaray í Tyrklandi en mun nú spila í heimalandinu í fyrsta sinn á ferlinum. Kewell fór frá Sydney til Englands þegar hann var táningur og á að baki fimmtán ára atvinnumannaferil í Evrópu.

Harry Kewell hefur verið í samningaviðræðum við Melbourne Victory síðan í júní því auk þess að fá góð laun þá vill hann fá hluta af þeirri tekjuaukningu sem koma hans í liðið skilar í kassann hjá félaginu.

Kewell á að baki 54 landsleiki (16 mörk) og hefur spilað í fjórum Heimsmeistarakeppnum. Hann er þjóðþekktur og vinsæll í heimalandinu og því má búast við miklum áhuga á Melbourne Victory liðinu á komandi tímabili.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×