Enski boltinn

Nasri: Vieira ráðlagði mér að koma til City

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Nasri virðist hæstánægður með vistaskiptin.
Nasri virðist hæstánægður með vistaskiptin. Mynd/Heimasíða Man City mcfc.co.uk
Samir Nasri, nýjasti liðsmaður Manchester City, segir Patrick Vieira haft mikið með það að gera að hann ákvað að söðla um. Vieira lék með City á síðasta tímabili áður en hann lagði skóna á hilluna í vor.

„Þegar leikmaður í þesssum gæðaflokki segir þér að Manchester City sé staðurinn til að vera á, vegna þess að þetta er félag framtíðarinnar sem vill vinna allt og er með tilkomumikið verkeppni í gangi, verðurðu að hlusta," sagði Nasri á heimasíðu félagsins.

Nasri gekk í gær frá fjögurra ára samningi við Manhcester City og er kaupverðið talið í kringum 25 milljónir punda. Vieira, sem nú starfar fyrir Manchester City, var ekki eini leikmaðurinn sem ráðlagði City. Gael Clichy og Kolo Toure, fyrrum leikmenn Arsenal og nú leikmenn City, voru honum innan handar.

„Ég ræddi heilmikið við þá líkt og Vieira," sagði Nasri. „Þeir þekkja muninn á Arsenal og Manchester City, það skipti miklu máli fyrir mig."

Nasri er spenntur fyrir því að spila með stórstjörnum á borð við Carlos Tevez, Sergio Aguero og David Silva.

„Þegar þú skiptir um félag viltu spila með þekktum leikmönnum. Ég er upp með mér að vera í sama búningsklefa og get ekki beðið eftir því að spila með þeim. Í Frakklandi er Man City kallað „Galactivos" líkt og þegar Zidane spilaði fyrir Real Madrid," sagði Nasri.

Zidane, félagi Vieira úr franska landsliðinu sem vann HM 1998 og EM 2000, var keyptur til Real Madrid árið 2001 í kjölfarið á kaupum Luis Figo. Síðar voru Ronaldo og David Beckham fengnir til félagsins fyrir stórfé. Nasri er líkt og Zidane af alsírskum uppruna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×