Fótbolti

Van der Vaart og Van Persie ekki með á móti Þjóðverjum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Rafael van der Vaart.
Rafael van der Vaart. Mynd/Nordic Photos/Getty
Rafael van der Vaart, leikmaður Tottenham og hollenska landsliðsins, meiddist aftan í læri í vináttulandsleiknum á móti Sviss í gær. Hollendingar náðu þá aðeins markalausu jafntefli á móti Svisslendingum.

„Hann fékk krampa í lærið. Þetta er ekki alvarlegt en Þýskalandsleikurinn kemur of snemma fyrir hann," sagði Bert van Marwijk, þjálfari Hollendinga, eftir leikinn.

Bert van Marwijk varð einnig við beiðni Arsene Wenger, stjóra Arsenal, um að hvíla Robin van Persie í leiknum á móti Þjóðverjum á þriðjudaginn eftir að Arsenal-maðurinn viðurkenndi að hann væri útkeyrður.

Robin van Persie hefur farið á kostum í ensku úrvalsdeildinni og hefur skorað átta mörk og gefið tvær stoðsendingar í síðustu fjórum deildarleikjum sínum með Arsenal-liðinu.

Þýskaland og Holland mætast í Hamburg á þriðjudaginn kemur en báðar þjóðir unnu örugglega sína riðla í undankeppni EM. Klas-Jan Huntelaar gat ekki spilað á móti Sviss en verður væntanlega í framlínunni í Þýskalandsleiknum.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×