Enski boltinn

Kean óttast ekki að missa starfið

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Steve Kean, stjóri Blackburn.
Steve Kean, stjóri Blackburn. Nordic Photos / Getty Images
Steve Kean, stjóri Blackburn, óttast ekki að hann verði rekinn þegar hann mun funda með eigendum félagsins í vikunni.

Hinir indversku eigendur félagsins fengu Kean og þá leikmenn félagsins sem eru ekki í landsliðsverkefnum til Indlands þar sem þeir verða næstu vikuna.

Blackburn hefur ekki gengið vel undir stjórn Kean sem óttast þó ekki að hann verði látinn taka poka sinn fyrir næsta leik liðsins.

„Ég hef margoft heyrt að ég verði brátt tekinn á teppið hjá eigendunum. Það hef ég fengið að heyra í síðustu 6-7 skiptin sem ég hef komið hingað,“ sagði Kean við enska fjölmiðla.

„En hingað kem ég einu sinni í mánuði til að fara yfir málin með eigendunum. Við ræðum allt sem skiptir félagið máli - hvernig best væri að hlúa að ungum leikmönnum og hvað við eigum að gera á leikmannamarkaðnum.“

Hann er handviss um að hann sé rétti maðurinn til að snúa við gengi liðsins. „Ég hef fulla trú á sjálfum mér. Ég veit að ég nýt stuðnings eigendanna, leikmannanna og meirihluta stuðningsmannanna og er ánægður í starfinu. Á meðan svo er hef ég trú á því að við getum komist á beinu brautina.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×