Fótbolti

Skipti úr Fenerbahce í Galatasaray

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Colin Kazim-Richards var lánaður til Toulouse í Frakklandi í fyrra.
Colin Kazim-Richards var lánaður til Toulouse í Frakklandi í fyrra. Nordic Photos / AFP

Colin Kazim-Richards, sem er af enskum og tyrkneskum ættum, er sjálfsagt ekki vinsælasti maðurinn í Istanbúl þessa dagana.

Kazim-Richards hefur verið á mála hjá Fenerbahce síðan 2007 en fékk sig nýverið lausan undan samningi sínum við félagið.

Búist var við því að hann myndi snúa aftur til Englands þar sem hann ólst upp en hann ákvað þess í stað að gera þriggja og hálfs árs samning við erkifjendurna í Galatasaray.

Það má því búast við því að stuðningsmenn Fenerbahce séu æfareiðir í garð Kazim-Richards þó svo að hann sé ekki sá fyrsti í sögunni sem ákveður að fara úr öðru liðinu í hitt.

„Þetta er draumi líkast fyrir mig því ég er kominn til afar mikilvægs félags," sagði Kazim-Richards í viðtali á heimasíðu Galatasaray.

„Það er búist við miklu af mér og ég ætla að standa mig eins vel og ég get. Ég mun nú einbeita mér að því að spila vel í treyju Galatasaray."

Kazim-Richards er 24 ára gamall og hefur spilað með tyrkneska landsliðinu síðan 2007. Hann spilaði með liðinu á EM 2008 er Tyrkland komst í undanúrslit mótsins og tapaði þar fyrir Þjóðverjum.

Hann hóf atvinnumannaferilinn hjá Bury í Englandi en lék einnig með Brighton & Hove Albion og Sheffield United áður en hann hélt til Tyrklands.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×