Enski boltinn

Mikil pressa á Andy Carroll

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Andy Carroll.
Andy Carroll. Nordic Photos / Getty Images
Félagsskipti Andy Caroll frá Newcastle til Liverpool hafa vakið mikla athygli enda ekki að ástæðulausu. Verðmiðinn, 35 milljónir punda, gerir Carroll að áttunda dýrasta knattspyrnumanni sögunnar.

Það sem helst hefur verið gagnrýnt við kaup Liverpool er að Carroll á enn eftir að sanna sig á stóra sviðinu. Hann hefur ekki spilað heilt tímabil í efstu deild auk þess sem hann hefur spilað innan við einn A-landsleik. Hann spilaði 72 mínútur í tapi Englendinga gegn Frökkum í nóvember síðastliðnum. Enginn annar leikmaður á topp tíu listanum var svo reynslulítill þegar kaup hans fóru fram.

Topp tíu listinn yfir dýrustu leikmenn sögunnar, skv. www.goal.com:

1. Cristiano Ronaldo til Real Madrid á 80 milljónir punda

2. Zlatan Ibrahimovic til Barcelona á 60.7 milljónir punda

3. Kaka til Real Madrid á 56 milljónir punda

4. Fernando Torres til Chelsea á 50 milljónir punda

5. Zinedine Zidane til Real Madrid á 45.6 milljónir punda

6. Luis Figo til Real Madrid 37 milljónir punda

7. Hernan Crespo til Lazio á 35.5 milljónir punda

8. Andy Carroll til Liverpool á 35 milljónir punda

9. David Villa til Barcelona á 34.2 milljónir punda

10. Gianluigi Buffon til Juventus á 32.6 milljónir punda

Caroll sem er 22 ára er einnig yngsti leikmaðurinn á listanum á tíma félagsskiptana. Næstyngstur var Gianluci Buffon sem var keyptur til Juventus 23 ára árið 2001. Buffon var þá búinn að stimpla sig inn í ítalska landsliðið og aðeins meiðsli höfðu komið í veg fyrir þátttöku hans á stórmóti. Allir hinir leikmennirnir höfðu spilað á stórmóti þegar þeir fluttu sig um set fyrir metfé.

Ef litið er á nágranna Caroll á listanum þá Hernan Crespo og David Villa má benda á þau verðlaun sem leikmennirnir höfðu unnið til fyrir félagsskiptin. Crespo fékk silfurverðlaun á ólympíuleikunum 1996 auk þess sem hann vann ítalska bikarinn og UEFA bikarinn með Parma árið 1999. Villa er sem stendur Evrópumeistari og heimsmeistari með Spánverjum og skoraði flest mörk allra í báðum keppnum svo eitthvað sé nefnt.

Caroll glímir við meiðsli sem stendur auk þess sem hann stendur í málaferlum við fyrrum umboðsmann sinn. Auk þessa liggur ekki ljóst fyrir hvort Carroll hafi í raun og veru viljað yfirgefa uppeldisfélag sitt Newcastle United. Caroll hefur því um margt að hugsa þessa dagana og verður forvitnilegt að sjá hvernig framherjinn stæðilegi stendur sig í rauðri treyju númer níu hjá Liverpool.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×