Enski boltinn

Eigendur Liverpool íhuga framtíð Hodgson

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Roy Hodgson, stjóri Liverpool.
Roy Hodgson, stjóri Liverpool. Nordic Photos / Getty Images
Samkvæmt fréttavef breska ríkisútvarpsins munu nú eigendur Liverpool vera að íhuga hvort þeir eigi að reka Roy Hodgson úr starfi knattspyrnustjóra liðsins.

Liverpool tapaði í gær fyrir Blackburn, 3-1, og er í tólfta sæti ensku úrvalsdeildarinnar. Þetta var níunda tap liðsins í alls 20 leikjum þess á tímabilinu til þessa. Liðið er aðeins fjórum stigum frá fallsæti.

Hodgson var ráðinn nú í sumar eftir að hann náði góðum árangri með Fulham á síðasta tímabili. Skipt var um eigendur hjá Liverpool í haust en þeir hafa hingað til haldið tryggð við Hodgson þrátt fyrir slæmt gengi liðsins.

Sjálfur vildi Hodgson ekki tjá sig um framtíð sína eftir leikinn í gær.

„Ég er ekki tilbúinn að ræða um framtíðina því ég er nógu dapur fyrir vegna frammistöðu liðsins og úrslita leiksins."

Blaðamannafundur Hodgson eftir leikinn í gær entist í aðeins tvær mínútur. Hann neitaði að svara öllum spurningum um framtíð hans í starfi og gekk því út af fundinum.

Fernando Torres, Steven Gerrard og Joe Cole spiluðu allir með Liverpool í gær en þess má einnig geta að átta leikmenn úr aðalliði Blackburn voru í gær fjarverandi af ýmsum ástæðum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×