Innlent

Ísland verður að vera samkeppnishæft í kísiliðnaði

Fjárfestingasamningar vegna kísilverksmiðju í Helguvík voru undirritaðir í febrúar. Íslenska kísilfélagið segir hugmyndir að kolefnisgjaldi á rafskaut setja kísilvinnslu á Íslandi í uppnám. Iðnaðarráðherra segir málið verða skoðað heildstætt. Fréttablaðið/Víkurfréttir
Fjárfestingasamningar vegna kísilverksmiðju í Helguvík voru undirritaðir í febrúar. Íslenska kísilfélagið segir hugmyndir að kolefnisgjaldi á rafskaut setja kísilvinnslu á Íslandi í uppnám. Iðnaðarráðherra segir málið verða skoðað heildstætt. Fréttablaðið/Víkurfréttir
KAtrín júlíusdóttir
Katrín Júlíusdóttir iðnaðarráðherra segist taka athugasemdir forsvarsmanna Íslenska kísilfélagsins alvarlega og að Ísland þurfi að vera samkeppnishæft þegar komi að kísiliðnaði. Magnús Garðarsson, forstjóri félagsins, sagði í Fréttablaðinu í gær að kolefnisgjald, sem sé fyrirhugað í stjórnarfrumvarpi, setji áform þeirra um uppbyggingu verksmiðju í Helguvík í uppnám.

„Við erum að skoða málin mjög vandlega,“ segir Katrín í samtali við Fréttablaðið. „Það sem ég tel að verði að liggja til grundvallar í þessu öllu er að Ísland sé samkeppnishæft þegar kemur að því að vera aðlaðandi fyrir atvinnugreinar. Við munum skoða málið í heild sinni í því samhengi.“

Frumvarpið gerir ráð fyrir að 3,4 króna kolefnisgjald sé á hvert kíló rafskauta sem eru meðal annars notuð í framleiðslu á kísli og áli. Miðað er við að viðbótartekjur ríkissjóðs vegna þessa, á árinu 2013, verði 1,5 milljarðar króna.

Magnús sagði að þetta gjald yrði til þess að aðilar í kísiliðnaði muni frekar líta til annarra landa, sem væri bagalegt þar sem raforka hér á landi væri mun umhverfisvænni en í öðrum löndum þar sem kolefnaeldsneyti sé notað við raforkuframleiðslu.

„Í heildina séð er þetta umhverfisvænn iðnaður sem við ættum að vera stolt af að fá til Íslands,“ sagði hann.

Katrín segir að litið sé til kísiliðnaðar í framtíðaráætlunum hér á landi og málið verði skoðað ofan í kjölinn án þess þó að hægt væri að lofa neinu.

„Þetta er það svið sem er að koma hvað sterkast inn hvað varðar mögulega nýfjárfestingu hér á landi. Málið verður að skoðast í samhengi, en ég held að við séum ekki að fara að skattleggja neina út úr landinu. Ef menn hafa farið fram úr sér verður það skoðað í rólegheitum og í góðu sambandi við alla aðila til að fá botn í málið.“

Kolefnagjaldið er hluti af víðtæku frumvarpi um ráðstafanir í ríkisfjármálum og var kynnt á Alþingi í upphafi mánaðar. Því hefur nú verið vísað til efnahags- og viðskiptanefndar sem mun ræða málið í dag og hefur meðal annars kallað forsvarsmenn Íslenska kísilfélagsins til fundarins.thorgils@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×