Fótbolti

Sörensen: Stundum þarf að treysta á heppnina

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Thomas Sörensen markvörður Dana var hæstánægður með stigin þrjú í baráttuleik.

„Það er aldrei auðvelt að spila hér. Þetta er í þriðja sinn sem ég kem hingað og það er alltaf mikil barátta. Svoleiðis var það í dag. Við fengum betri færi en þeir áttu góðan kafla síðustu 20 mínúturnar í fyrri hálfleik og byrjun þess seinni. Hefðu þeir skorað þá hefði þetta orðið erfitt."

Íslendingar komust í góð færi undir lok fyrri hálfleiks en Sörensen sagði að það hefði samt ekki verið farið að fara um hann.

„Færið kom eftir hornspyrnu að mig minnir. Með smá heppni hefði getað verið íslenskur leikmaður til að koma boltanum í markið en þannig er fótboltinn. Stundum þarftu að treysta á heppnina og við gerðum það á þessum kafla. Við fengum það sem við ætluðum okkur. Þrjú stig og það er allt sem við gátum óskað okkur."

Sörensen segir ákveðin kynslóðaskipti í danska liðinu líkt og því íslenska.

„Það er erfitt að leggja mat á leikinn í dag enda völlurinn lélegur og vallaraðstæður erfiðar. Heilt yfir er mikið af ungum leikmönnum að koma upp líkt og í íslenska liðinu. Þeir vaxa með reynslunni og vonandi getum við komið sterkari til leiks í haust."

Sörensen telur Dani ennþá eiga fína möguleika á að komast í lokakeppnina.

„Já, við eigum tvo heimaleiki og einn útileik. Þrír sigrar og þá erum við komnir áfram. Ef við getum haldið uppteknum hætti í haust, hví ekki?"




Fleiri fréttir

Sjá meira


×