Enski boltinn

Kasper Schmeichel fékk tvö gul spjöld fyrir að tefja

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kasper Schmeichel fær hér rauða spjaldið.
Kasper Schmeichel fær hér rauða spjaldið. Mynd/Nordic Photos/Getty
Kasper Schmeichel, sonur Peter Schmeichel og markvörður Leicester, fór illa að ráði sínu í 2-2 jafntefli Leicester á móti Nottingham Forest í ensku b-deildinni í gær. Hann fékk nefnilega tvö gul spjöld fyrir að tefja leikinn og það á sömu mínútunni.

Leicester komst í 2-0 í leiknum með mörkum David Nugent og Gelson Fernandes í fyrri hálfleik en atvikið með Kasper Schmeichel gerðist þegar Nottingham Forest fékk dæmt víti á 79.mínútu.

Schmeichel fékk fyrra spjaldið fyrir að tefja framkvæmd vítaspyrnunnar en það seinna fyrir að sparka boltanum upp í stúku í bræðiskasti eftir að Lewis McGugan hafði skorað úr vítaspyrnunni.

George Boateng tryggði Nottingham Forest síðan 2-2 jafntefli með marki á fjórðu mínútu í uppbótartíma en Chris Weale var þá í marki Leicester.

Sven-Göran Eriksson, stjóri Leicester, furðaði sig yfir ákvörðun dómarans eftir leikinn en það er ekki oft sem markverðir frá tvö spjöld með mínútu millibili fyrir að tefja leikinn.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×