Enski boltinn

Viðræður Cardiff og Shearer út um þúfur

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Newcastle féll úr úrvalsdeildinni undir stjórn Shearer
Newcastle féll úr úrvalsdeildinni undir stjórn Shearer Mynd/Nordic Photos/Getty
Alan Shearer mun ekki verða næsti knattspyrnustjóri Cardiff í ensku Championship-deildinni. Shearer átti í viðræðum við félagið en hefur nú útilokað að taka við liðinu. Cardiff stefnir enn eitt árið á að komast upp í ensku úrvalsdeildina en liðið hefur verið seinheppið undanfarin ár og klúðrað málunum á ögurstundu.

Shearer staðfesti við fjölmiðla að hann hefði átt í viðræðum við Cardiff.

„Ég dáðist að hugsjón, metnaði og ákveðni eigandans Dato Chan Tien Ghee og stjórnarinnar,“ sagði Shearer.

„Því miður gengu hlutirnir ekki upp í þetta skiptið. Cardiff er frábært félag og ég óska þeim alls góðs á næsta tímabili.“

Meðal annarra knattspyrnustjóra sem eru orðaðir við stöðuna eru Roberto Di Matteo og Chris Hughton.

Afar fróðlegt hefði verið að fylgjast með viðbrögðum Craig Bellamy hefði Shearer verið ráðinn. Sóknarmennirnir elduðu grátt silfur saman þegar þeir léku saman hjá Newcastle.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×