Innlent

Þurrkuðu kókaín sem lá í jörðu í ár

Ölfusborgir Mennirnir þurrkuðu kókaínið í orlofshúsi í Ölfusborgum.
Ölfusborgir Mennirnir þurrkuðu kókaínið í orlofshúsi í Ölfusborgum.
Ríkissaksóknari hefur ákært þrjá litháíska karlmenn í kókaínmáli sem upp kom á Suðurlandi í október síðastliðnum.

Einum mannanna er gefið að sök að hafa flutt inn rúmlega 374 grömm af kókaíni ætluðu til söludreifingar hér á landi. Fíkniefnin hafi hann flutt hingað í ferðatösku og falið þau í jörðu.

Þessum manni, auk hinna tveggja, er svo gefið að sök að hafa í október haft ofangreind efni í vörslu sinni í sumarhúsi í Ölfusborgum. Þar voru mennirnir að bauka við að þurrka þau, því þau voru blaut eftir að hafa legið um eitt ár í jörð. Mennirnir voru einnig með íblöndunarefni auk acetons, edikssýru og fleiri efna.

Samkvæmt upplýsingum Fréttablaðsins er ekki vitað með vissu hvar maðurinn gróf kókaínið, en hann mun hafa greint frá málinu með þessum hætti við yfirheyrslur.

Umræddur maður hafði á rannsóknarstigi málsins verið úrskurðaður í farbann í héraðsdómi og var þá látinn laus. Hæstiréttur sneri þeim úrskurði við og var maðurinn þá handtekinn aftur og hnepptur í áframhaldandi varðhald, sem rennur út 30. desember næstkomandi. Hinir mennirnir tveir eru í farbanni.- jss



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×