Enski boltinn

Heiðar er tæpur fyrir næsta leik QPR

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Heiðar fagnar hér einu af fimm mörkum sínum í ensku úrvalsdeildinni í haust.
Heiðar fagnar hér einu af fimm mörkum sínum í ensku úrvalsdeildinni í haust. Mynd/Nordic Photos/Getty
Heiðar Helguson, sóknarmaður QPR, hefur ekkert getað æft með liði sínu í vikunni eftir að hann varð fyrir meiðslum í leik liðsins gegn Stoke um helgina. QPR vann leikinn, 3-2, og skoraði Heiðar tvö mörk þrátt fyrir að hafa fengið þungt högg í andlitið snemma leiks.

„Því miður hefur Heiðar ekkert getað æft og er hann tæpur fyrir leikinn gegn Norwich á laugardaginn,“ sagði Neil Warnock, stjóri QPR, í viðtali sem birtist á heimasíðu félagsins í gær.

Heiðar hefur oft átt í vandræðum með meiðsli í gegnum tíðina en hann hefur þó spilað hverja einustu mínútu í síðustu fimm leikjum liðsins og skorað í þeim fimm mörk.

Heiðar er ekki sá eini sem er að glíma við meiðsli hjá QPR, en Warnock hafði aðeins fimm leikmenn á varamannabekknum gegn Stoke um helgina. Að morgni leikdags veiktist Jason Puncheon og Brian Murphy meiddist í upphitun. Luke Young þurfti svo að fara snemma meiddur af velli og þá meiddist Armand Traore seint í leiknum en náði þó að klára hann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×