Innlent

Þingvellir ofsetnir af köfunarfyrirtækjum

Kafarar koma um langan veg til Íslands til að kanna undraveröld Silfru. Er svo komið að setja þarf upp einhvers konar aðgangsstýringu vegna of mikils átroðnings við þessa náttúruperlu.
Fréttablaðið/Vilhelm
Kafarar koma um langan veg til Íslands til að kanna undraveröld Silfru. Er svo komið að setja þarf upp einhvers konar aðgangsstýringu vegna of mikils átroðnings við þessa náttúruperlu. Fréttablaðið/Vilhelm
Sprenging er orðin í ásókn í köfun á Þingvöllum. Setja á fyrirtækjunum sem þar selja köfun starfsramma til að hindra að gjáin Silfra verði hreinlega ofsetin af köfurum.

„Við erum í góðu samstarfi við þessi fyrirtæki að skoða hvernig við getum gætt að því að þarna verði ekki stjórnlaus fjölgun og hvernig þau geti selt þá vöru sem viðskiptavinir eru að kaupa,“ segir Ólafur Örn Haraldsson þjóðgarðsvörður.

Meðal annars er rætt um að gera þurfi bílaplan, koma upp salernisaðstöðu og einhverju skjóli þar sem menn geti útbúið sig. Ólafur segir fyrirtækin sjálf búa að vel þjálfuðu starfsfólki og sinna mikilvægu hlutverki í ferðaþjónustu enda Silfra heimsfræg meðal kafara. Allir séu sammála um að starfsemin þurfi að búa við góð skilyrði en átroðningurinn sé hreinlega svo mikill að gróður sé orðinn traðkaður ofan í svörð. Því sé sá tími einfaldlega liðinn að köfunarfyrirtækin geti óheft gengið í Silfru.

„Þarna eru mjög viðkvæm, mosagróin svæði allt í kring og álagið er gríðarlega mikið. Síðan eru bílarnir oft í vegkantinum á mjög þröngum vegi og það er alveg óviðunandi,“ segir þjóðgarðsvörður.

Málið var rætt á fundi Þingvallanefndar í september. Þar var ákveðið að Ólafur myndi halda áfram að undirbúa að settar verði reglur í samráði við köfunarfyrirtækin og Siglingastofnun um vottun og starfsleyfi fyrirtækjanna. Þá var samþykkt að köfunarfyrirtækin greiði gjald fyrir aðganginn og aðstöðuna og það notað til að tryggja öryggi og kosta framkvæmdir.

„Fyrirtækin koma þarna og nýta sér takmörkuð gæði og þurfa aðstöðu og við höfum ekki fé til að gera meira en við höfum gert,“ segir Ólafur sem rætt hefur við forsvarsmenn fyrirtækjanna um aðstöðugjaldið. „Það hefur ekki verið samþykkt en því hefur verið tekið af skilningi. Það er allra hagur að vel sé að þessum málið staðið.“- gar




Fleiri fréttir

Sjá meira


×