Enski boltinn

Tap Man. City nam 36,3 milljörðum

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Eigandi Manchester City stefnir á að félagið geti staðið undir eigin rekstri í framtíðinni.nordicphotos/getty
Eigandi Manchester City stefnir á að félagið geti staðið undir eigin rekstri í framtíðinni.nordicphotos/getty
Enska úrvalsdeildarfélagið Manchester City gaf það út í gær að tap félagsins á rekstrarárinu 2010-2011 hefði alls numið 194,9 milljónum punda, eða tæplega 36,3 milljörðum króna.

Þetta er vitaskuld mesta tap sem enskt knattspyrnufélag hefur tilkynnt fyrir aðeins eitt ár og sýnir hversu stórtækir eigendur félagsins hafa verið síðan þeir keyptu það í ágúst árið 2008.

Á þessum tíma hafa þeir breytt liðinu úr miðlungsúrvalsdeildarliði í eitt öflugasta félagslið Englands, og þótt víðar væri leitað, en það trónir nú á toppi ensku úrvalsdeildarinnar.

Forráðamenn félagsins segja að tapið hafi ekki komið á óvart og sé í samræmi við áætlanir félagsins sem tóku mið af því að leggja háar upphæðir í félagið fyrstu þrjú árin. Enda hefur liðið verið styrkt með gríðarsterkum leikmönnum sem margir eru meðal þeirra allra launahæstu í knattspyrnuheiminum.

Forráðamennirnir segja hins vegar líka að markmiðið sé að félagið verði sjálfbært með árunum. Tekjur þess hafi aukist mikið síðustu ár og ef það standi sig jafn vel og stefni í sé mögulegt að þær muni hækka enn meira á komandi árum. Velta Manchester City á þessu sama tímabili nam 153,2 milljónum punda, sem er met hjá félaginu.

Samkvæmt nýjum reglum Knattspyrnusambands Evrópu, UEFA, um rekstur knattspyrnufélaga má ekkert félag skila meira tapi en 40 milljónum punda ár hvert, frá og með núverandi rekstrarári. Forráðamenn City eru vongóðir um að geta staðist þær kröfur enda sé liðið það vel mannað í dag að ekki þurfi að eyða jafn miklu í leikmannakaup og á síðustu árum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×