Fótbolti

Kolbeinn er enn í göngugifsi og á hækjum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ætlar að koma aftur í febrúar. Kolbeinn Sigþórsson losnar úr gifsinu 20. desember og hefur sett sér það markmið að spila aftur með Ajax í febrúarmánuði.Nordicphotos/Getty
Ætlar að koma aftur í febrúar. Kolbeinn Sigþórsson losnar úr gifsinu 20. desember og hefur sett sér það markmið að spila aftur með Ajax í febrúarmánuði.Nordicphotos/Getty
Kolbeinn Sigþórsson var búinn að stimpla sig inn í Ajax-liðið í haust, hafði skorað fimm mörk í fyrstu sjö leikjunum og fram undan var mikið ævintýratímabil með toppbaráttu í Hollandi og leikjum í Meistaradeildinni. Í millitíðinni kom hann heim og tryggði íslenska karlalandsliðinu langþráðan sigur í undankeppni með sínu fjórða A-landsliðsmarki í aðeins átta leikjum.

Þetta breyttist hins vegar snögglega á Euroborg-vellinum í Groningen 2. október síðastliðinn. „Ég var að taka sprett í leik á móti Groningen og það brotnaði eitthvert bein í löppinni við þann sprett," segir Kolbeinn, sem var ökklabrotinn og við tók því aðgerð og löng fjarvera.

Aðgerðin gekk mjög vel„Aðgerðin gekk mjög vel og nú þarf ég bara að bíða eftir því að þetta grói allt saman. Ég er enn á hækjum því þetta er rólegt ferli. Ég er líka enn í göngugifsi og ég þarf að vera í því til 20. desember," segir Kolbeinn.

„Þetta mun því taka langan tíma til viðbótar. Það sem er búið að segja við mig er að ég geti sett mér það markmið að vera kominn aftur í febrúar. Ég vonast því til að geta verið orðinn klár í febrúar ef allt gengur vel," segir Kolbeinn, en þetta er langt frá því að vera fyrstu meiðslin sem hann þarf að vinna sig í gegnum.

Kolbeinn glímdi líka við erfið meiðsli tvö fyrstu árin sín hjá AZ Alkmaar, en hefur hann áhyggjur af þessum síendurteknu meiðslum?

Hefur ekki miklar áhyggjur„Ég hef í raun ekki miklar áhyggjur af því. Ég tel að það hafi verið hrein óheppni í þessi tvö síðustu skipti sem ég hef brotnað. Það er engin skýring nema kannski álag. Þetta eru ekki meiðsli sem geta ekki orðið betri, þannig að ég bíð bara eftir því að vera búinn að ná mér," segir Kolbeinn en viðurkennir jafnframt að það hafi tekið á að sætta sig við þetta.

„Það tók einhvern tíma að sætta sig við þetta enda vill enginn sem er að spila fótbolta lenda í einhverju svona. Ég hef fengið tíma til að komast yfir þetta og núna er ég bara að gíra mig í gang og ætla að koma aftur til baka eins sterkur og hægt er," segir Kolbeinn.

Ajax keypti Kolbein frá AZ Alkmaar fyrir 4,5 milljónir evra í sumar, en hann skoraði 11 mörk í síðustu 13 deildarleikjum sínum með AZ á síðasta tímabili og alls 18 mörk á sínu fyrsta alvöru tímabili með liðinu. Það tók ekki langan tíma að aðlagast hlutunum hjá Ajax.

16 mörk í síðustu 20 leikjum„Ég var mjög sáttur við byrjunina. Við vorum að spila vel sem lið og ég var líka sáttur við eigin frammistöðu," segir Kolbeinn, en ef við tökum ekki með leikinn á móti Groningen, þar sem hann meiddist í upphafi leiks, hefur hann skorað 16 mörk í síðustu 20 leikjum í hollensku deildinni.

Ajax-liðið hafði náð í 15 af 21 mögulegu stigi í fyrstu sjö umferðunum með Kolbein í fremstu línu en leikurinn afdrifaríki á móti Groningen var fyrsti tapleikurinn í deildinni. Síðan þá hefur liðið aðeins náð að vinna 1 af 4 deildarleikjum sínum og það fer ekki framhjá neinum að Ajax-liðið saknar íslenska framherjans.

Mikil krísa í klúbbnum„Það gengur ekki vel eins og er. Við erum ellefu stigum frá AZ Alkmaar, sem er ekki nógu gott. Það er mikil krísa í klúbbnum af því að það var verið að ráða Van Gaal. Cruijff var að stjórna félaginu en þeir geta ekki unnið saman," segir Kolbeinn, sem vill ekki blanda sér í þá deilu. Hann segir næstu vikur ráða miklu um það hvort Ajax eigi enn möguleika á að vinna meistaratitilinn þegar hann snýr til baka eftir áramót.

„Við verðum bara að taka öll fimmtán stigin í boði fram að jólum. Við verðum líka að vonast eftir því að efstu liðin tapi stigum svo að við komumst eitthvað nær. Ef við förum að tapa fleiri stigum verður þetta ansi erfitt," segir Kolbeinn. Það eru margir leikir þar til í febrúar og vonandi verða ekki meistaravonir Ajax úr sögunni þegar hann snýr aftur.

Kolbeinn reynir að umgangast liðið eins mikið og hann getur.

„Ég reyni að mæta eins mikið og ég get og reyni að styðja við liðið og vera í kringum hópinn. Það er mikilvægt að vera inni í öllu þegar maður kemur til baka. Það er líka ekki gott að vera alltaf einn með sjálfum sér og það er betra að vera í kringum menn sem eru að hugsa um fótbolta," segir Kolbeinn.

Hann hefur samt nóg að gera þrátt fyrir að hann geti ekki sparkað bolta næstu mánuði.

Fimm til sex tímar á dag„Þetta er ekkert skemmtilegt. Sumir halda að maður sé heima uppi í rúmi að hvíla sig. Þetta er þvílík vinna. Maður er fimm til sex tíma á hverjum degi að vinna með líkamann og gera æfingar sem eru hundleiðinlegar. Þetta er því hundleiðinlegt tímabil. Maður getur því varla beðið eftir því að fá að sparka aftur í fótbolta," segir Kolbeinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×