Innlent

Mörg útköll á viku þar sem börn sjá ofbeldi

Mynd/Teitur
Sérfræðingur á vegum Barnaverndarstofu er kallaður út oft í viku, um kvöld, nætur og helgar til að sinna börnum sem hafa orðið vitni að heimilisofbeldi. Félagsráðgjafi sem sinnir verkefninu segir brýnt að sérfræðingar sinni börnunum sem fyrst eftir að atvikin eigi sér stað.

Mikil umræða hefur staðið síðustu misseri um stöðu barna sem verða vitni að ofbeldi, en úrræðum og þjónustu þeim til handa hefur þótt ábótavant. Nýlegar úttektir hafa gefið til kynna að hundruð barna búi við slíkar aðstæður. Þá hefur samráð þeirra sem sjá um málaflokkinn ekki verið talið nægjanlegt.

Þessi umræða varð til þess að Barnaverndarstofa fór út í tímabundið tilraunaverkefni með barnaverndarnefndum og lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu til að auka þjónustu í málum barna og unglinga sem hafa orðið vitni að ofbeldi milli foreldra.

Ragna B. Guðbrandsdóttir félagsráðgjafi hefur umsjón með verkefninu, en í því felst að ef lögregla er kölluð til vegna ofbeldis inni á heimilum þar sem börn eru viðstödd eru sérfræðingar kallaðir til.

„Það miðar eingöngu að því að sinna börnunum, meta hvaða áhrif atvikið hafði á þau, komast að því hvort um endurtekin tilvik sé að ræða og meta þörfina fyrir áframhaldandi stuðning og meðferð. Börnin halda oft að ástandið sé á einhvern hátt þeim að kenna," segir Ragna.

Spurð um fjölda tilvika segir Ragna að um nokkur tilfelli sé að ræða á viku, sem sé í samræmi við það sem búist hafi verið við.

Verkefnið stendur til 15. mars næstkomandi og segir Ragna að þá muni Barnaverndarstofa ákveða hvort framhald verði þar á.

- þj




Fleiri fréttir

Sjá meira


×