Innlent

Vill skylda sýslumenn til að útvega túlka

Amal Tamimi segir að tryggja verði að fólk sem ekki tali íslensku skilji það sem fram fari hjá sýslumönnum. Fréttablaðið/Anton
Amal Tamimi segir að tryggja verði að fólk sem ekki tali íslensku skilji það sem fram fari hjá sýslumönnum. Fréttablaðið/Anton
Skylda ætti sýslumannsembætti landsins til að útvega þeim innflytjendum sem þurfa túlkaþjónustu til að tryggja réttindi innflytjenda sem þangað leita, sagði Amal Tamimi, þingmaður Samfylkingarinnar, í umræðum um innflytjendamál á Alþingi í gær.

Augljós hætta er á því eins og staðan er í dag að fólk af erlendum uppruna skilji ekki það sem fram fer hjá sýslumönnum, sagði Amal.

Hún sagði sögu konu af erlendum uppruna sem hefði að beiðni eiginmanns síns skrifað undir pappíra sem hún hélt að væru vegna bílakaupa. Hún fór með eiginmanninum til sýslumanns til að afhenda pappírana, án þess að átta sig á því að hún væri hjá sýslumannsembætti.

Þegar konan, sem beitt var ofbeldi af manni sínum, spurði félagsráðgjafa hvernig hún gæti skilið við manninn kom í ljós að hún hafði óafvitandi undirritað eigin skilnaðarpappíra.

Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra sagði sýslumenn ekki hafa lagaskyldu til að bjóða upp á túlkaþjónustu. Hann hefði hins vegar spurt sýslumenn hvernig slíkri þjónustu væri háttað og fengið þau svör að þar væri „reynt að koma til móts við“ fólk sem ekki skildi íslensku, ensku eða norrænt tungumál. Ögmundur segist ekki þekkja dæmi þess að gagnaðili túlki hjá sýslumanni í deilumáli.

Til greina kemur að breyta lögum svo að sýslumenn þurfi að útvega túlka, sagði Ögmundur. Ef vilji Alþingis stæði til þess að gera slíkar breytingar yrðu þingmenn að vera sjálfum sér samkvæmir og láta fjármagn fyrir túlkaþjónustu fylgja lagabreytingunum.- bj




Fleiri fréttir

Sjá meira


×