Íslenski boltinn

Þetta lofar góðu fyrir framhaldið

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Daníel Laxdal.
Daníel Laxdal. Mynd/Stefán
Daníel Laxdal og félagar í Stjörnunni slógu enn á ný í gegn í Pepsi-deildinni í sumar og náðu besta árangri félagsins í efstu deild. Stjörnumenn skemmtu áhorfendum með fögnunum í fyrra en í ár voru þeir með skemmtilegasta og markahæsta liðið og fögnin voru nú orðin frétt gærdagsins í Garðabænum.

Fyrirliðinn Daníel Laxdal fór fyrir sínum mönnum og átti frábært tímabil, en góð spilamennska þessa fjölhæfa 25 ára leikmanns skilaði honum efsta sætinu í einkunnagjöf Fréttablaðsins.

„Ég er sáttur við mína spilamennsku. Ég var ekki alveg nógu ánægður með mig á síðasta ári en mér fannst ég stíga upp núna eins og flestir gerðu í Stjörnuliðinu,“ segir Daníel, en liðið setti nýtt félagsmet með því að ná fjórða sætinu og var aðeins hársbreidd frá því að komast í Evrópukeppni.

„Ég held að allir Stjörnumenn geti verið sáttir við að enda í fjórða sæti þótt það hafi verið svolítið svekkjandi að hafa ekki náð þessu Evrópusæti þarna í lokin,“ segir Daníel. Hann er ánægður með markakónginn Garðar Jóhannsson, sem lýsti því yfir eftir lokaleikinn að nú ætlaði Stjarnan að verða Íslandsmeistari á næsta ári.

„Þetta lofar góðu fyrir framhaldið. Ég hefði ekkert á móti því að vinna dolluna næsta sumar en það er fínt að hafa ákveðin markmið. Við verðum að halda þessu áfram á næsta ári,“ segir Daníel.

Stjörnumenn voru sterkir á lokasprettinum og náðu í þrettán stig út úr síðustu sex leikjum sínum, en undanfarin tvö tímabil hafði liðið aðeins náð í samtals fimm stig (í tólf leikjum) út úr síðustu sex umferðunum.

Sýndu þroskamerki í sumar„Við höfðum alltaf fengið nóg og hætt í seinni umferðinni. Við sýndum núna að við erum orðnir miklu stöðugri sem lið og við vildum allir meira en að vera við miðju eða fyrir neðan miðju. Liðið sýndi klárlega þroskamerki í sumar,“ segir Daníel, en slæmur lokasprettur í fyrra átti örugglega mikinn þátt í því að spekingar töldu að blaðran væri sprungin og spáðu Stjörnunni aðeins 10. sæti.

„Við hlógum bara að þessu. Það er betra að vera spáð svona neðarlega og koma á óvart en öfugt. Við vildum bara sýna að við erum hörku fótboltalið og mér fannst við gera það í sumar,“ segir Daníel.

Stjarnan varð aðeins áttunda félagið í efstu deild til að brjóta fimmtíu marka múrinn á einu tímabili, en Stjörnumenn skoruðu 51 mark í leikjum 22. „Allur þessi sóknarleikur bitnar stundum á vörninni því við fáum allt of mörg mörk á okkur. Ef við náum að laga það mega hin liðin fara að passa sig,“ segir Daníel.

Líður best í vörninniBjarni Jóhannsson, þjálfari Stjörnunnar, var óhræddur við að færa Daníel til á vellinum í sumar. „Ég var á miðjunni, bæði djúpur og framarlega, og svo var ég farinn á kantinn. Það var orðið svolítið mikið flakk. Mér líður langbest í miðri vörninni,“ segir Daníel og viðurkennir að leikmenn Stjörnuliðsins þurfi ákveðið frjálsræði til að njóta sín.

„Bjarni þekkir vel inn á okkur og við inn á hann. Það er mikil orka sem býr í okkur og það kemur best í ljós inni á vellinum. Við erum villtir og úti um allt á vellinum,“ segir Daníel. Hann segir langflesta leikmenn liðsins vera góða vini og það skili sér í liðsstemningunni.

„Við erum mjög flottur hópur og ég held að það sé mjög auðvelt að koma inn í Stjörnuliðið. Ég held líka að besta klefastemningin á landinu sé hérna í Stjörnuklefanum,“ segir Daníel. Mikilvægt sé að Stjörnuliðið bæti við sig til þess að geta stigið næsta skref. „Við þyrftum að fá allavega tvo mjög sterka leikmenn til að styrkja liðið og þá verðum við til alls líklegir á næsta ári,“ sagði Daníel að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×