Fótbolti

Hallgrímur: Vil taka næsta skref á ferlinum í Hollandi

Eiríkur Stefán Ásgeirsson í Osló skrifar
Hallgrímur Jónasson.
Hallgrímur Jónasson. Mynd/Anton
Húsvíkingurinn Hallgrímur Jónasson var valinn í íslenska landsliðið fyrir leikina gegn Noregi og Kýpur en Ísland mætir fyrrnefnda liðinu ytra í dag. Hann segist ánægður með að hafa fengið kallið en Fréttablaðið hitti á Hallgrím á hóteli íslenska liðsins í Osló.

„Ég er alltaf ánægður með að vera valinn í íslenska landsliðið. Ég hef nokkrum sinnum verið valinn og spilað einn leik - gegn Færeyjum í Kórnum,“ sagði Hallgrímur en hann hóf atvinnumannaferilinn árið 2009 þegar hann fór til GAIS í Svíþjóð frá Keflavík. Hann var lánaður fyrir núverandi tímabil til SönderjyskE í Danmörku þar sem hann hefur staðið sig vel í upphafi tímabilsins.

„Það eru sjö leikir búnir og við erum í þriðja sæti. Menn eru því jákvæðir á þeim bænum eins og er,“ sagði Hallgrímur sem segist hafa fagnað tækifærinu á að komast til Danmerkur. „Ég var ekki að fá þau tækifæri hjá GAIS sem ég taldi að ég ætti skilið og ég hef þar að auki alltaf haft áhuga á að spila í Danmörku. Þetta voru því bara góð skipti fyrir mig.“

Samningurinn rennur út um áramótin og er óvíst hvað tekur við þá. „Það hafa verið einhverjar þreifingar á milli félaganna en ég veit ekki hvernig þau mál standa. Það eina sem ég get gert er að spila þessa leiki og reyna að gera mitt besta.“

Hann er ánægður með þann tíma sem hann hefur verið í atvinnumennskunni. „Ég er mjög ánægður. Ég hef lært mjög mikið og tekið út mikinn þroska. Reyndar byrjaði ég á því að fara í aðgerð og spilaði því ekki mikið í upphafi. En síðan þá hefur mér gengið vel og ég hef ekkert nema gott um dvölina að segja.“

Spurður um framtíðaráætlanir segir hann stefnuna vera að spila í sterkari deild. „Ég hef lengi sagt að draumurinn sé að komast til Hollands. Ég var þar þegar ég var ungur og það er eitthvað sem heillar mig við hollenska boltann. Ef ég held áfram að gera mitt besta þá vona ég að sá draumur geti ræst einn daginn.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×