Enski boltinn

Baráttan um borgina

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Yaya Toure fór auðveldlega framhjá Nemanja Vidic í undanúrslitaleiknum á Wembley í fyrra og skoraði sigurmarkið.
Yaya Toure fór auðveldlega framhjá Nemanja Vidic í undanúrslitaleiknum á Wembley í fyrra og skoraði sigurmarkið. NordicPhotos/AFP
Manchester-félögin City og United mætast á Wembley á morgun í Samfélagsskildinum. Þrátt fyrir gott málefni má reikna með hörkubaráttu á vellinum.Leikurinn er árleg viðureign Englandsmeistaranna og bikarmeistaranna og fer fram á Wembley-leikvanginum í London.

Tæpir fjórir mánuðir eru síðan liðin mættust á sama stað í undanúrslitaleik enska bikarins. City hafði sigur í baráttuleik og fór alla leið í keppninni. Titillinn var sá fyrsti hjá félaginu í 35 ár og loks fékk City-liðið uppreisn æru.

Þrátt fyrir að taka skuli leiki á undirbúningstímabilinu með fyrirvara hafa bæði lið litið afar vel út. United fór í æfingaferð til Bandaríkjanna þar sem hvert MLS-liðið varð fyrir barðinu á því á fætur öðru. Liðið kórónaði ferðina með 2-1 sigri á Barcelona og mætir fullt sjálfstrausts til leiks á morgun.

„Þetta verður enginn venjulegur leikur um Samfélagsskjöldinn fyrir Manchester United. Við þurfum að taka á háværu nágrönnum okkar. Þetta verður áhugaverður leikur,“ sagði Sir Alex Ferguson, knattspyrnustjóri United, á blaðamannafundi í gær.

Antonio Valencia er enn að jafna sig af meiðslum sem hann varð fyrir í Suður-Ameríkubikarnum og verður ekki með. Darren Fletcher verður einnig fjarri góðu gamni ásamt Rafael, Michael Carrick og Javier Hernandez. Reiknað er með að sá síðastnefndi verið klár í slaginn í lok mánaðarins.

Manchester City vann sömuleiðis alla leiki sína á undirbúningstímabilinu. Sá síðasti var 3-0 sigur á sterku liði Inter frá Mílanó. Dýrasti knattspyrnumaður City, Sergio Aguero, verður á bekknum en landi hans, Carlos Tevez, verður ekki með. Miklar vangaveltur hafa verið með framtíð Tevez hjá félaginu. Roberto Mancini, knattspyrnustjóri City, sagðist eiga von á honum á æfingu á mánudaginn.

„Carlos er atvinnumaður. Ef hann nær ekki að semja við annað félag á næstu tíu dögum eða tveimur vikum hugsa ég að hann spili fyrir okkur. Af fullum krafti líkt og á síðasta tímabili. Líkt og alltaf,“ sagði Mancini um stöðu Tevez hjá City.

Manchester City spilar í Meistaradeild Evrópu á þessari leiktíð. Mancini leggur þó áherslu að áherslan sé fyrst og fremst á að standa sig í deildinni. Liðið geti gert betri hluti en í fyrra en United standi liðinu þó enn framar.

„Manchester United er líklegast enda með mjög sterkt lið. Félagið hefur keypt nokkra leikmenn. Ég tel okkur standa því nærri en United hefur fimm metra forskot á okkur,“ sagði Mancini.

Leikurinn á Wembley hefst klukkan 13 á morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×