Erlent

Feðgarnir segjast ekkert hafa vitað um hleranirnar

Í miðjum yfirheyrslunum í gær réðst ókunnur maður að Rupert Murdoch og sletti raksápu á hann. Wendi Deng, eiginkona Ruperts, stökk þá upp úr stól aftan við eiginmanninn og reyndi að koma honum til varnar.
Í miðjum yfirheyrslunum í gær réðst ókunnur maður að Rupert Murdoch og sletti raksápu á hann. Wendi Deng, eiginkona Ruperts, stökk þá upp úr stól aftan við eiginmanninn og reyndi að koma honum til varnar. Mynd/AP
Í yfirheyrslum breskrar þingnefndar yfir eigendum og fyrrverandi framkvæmdastjóra vikublaðsins News of the World héldu þau öll því fram að þau hefðu ekkert vitað um ólöglegt athæfi á vegum blaðanna.

Hinn áttræði fjölmiðlakóngur Rupert Murdoch sagði framkvæmdastjóra og ritstjóra blaðanna hafa séð um rekstur þeirra, en að hann hafi sjálfur ekki verið inni í daglegum störfum.

Sonur hans, James Murdoch, sagðist sömuleiðis ekki hafa vitað um ólöglegar símhleranir eða mútugreiðslur til lögreglu og Rebekah Brooks, fyrrverandi framkvæmdastjóri blaðsins, vissi heldur ekkert um hleranir eða mútugreiðslur.

Öll sögðust þau hins vegar afar leið vegna málsins og sögðust sérlega hneyksluð á því að farsími þrettán ára týndrar stúlku, sem síðar fannst látin, hafi verið hleraður.

Murdoch eldri sagði sökina liggja hjá fólki sem hann hafi treyst, „en þeir ásaka kannski fólk sem þeir treystu“.

Málið hefur haft mikil áhrif á fjölmiðlaveldi Murdochs. Fyrirtæki hans hafa lækkað í verði á fjármálamörkuðum og rekstri News of the World var hætt eftir 168 ára samfellda útgáfu. Framkvæmdastjóri og fyrrverandi ritstjórar blaðsins hafa verið handteknir, yfirmenn bresku lögreglunnar hafa sagt af sér og vaxandi þrýstingur er á David Cameron forsætisráðherra.

Murdoch eldri sagði reyndar að andstæðingar hans hefðu komið af stað mikilli móðursýki vegna málsins, sem hafi orðið til þess að hann hafi ákveðið að hætta við að bjóða í rekstur sjónvarpsstöðvarinnar BSkyB.

Sean Hoare, blaðamaðurinn sem upphaflega ljóstraði því upp að hleranir hafi verið stundaðar á News of the World, fannst látinn á heimili sínu í gærmorgun.

Þrátt fyrir háan aldur lét Rupert Murdoch það lítil áhrif hafa á sig þótt maður hafi truflað yfirheyrsluna með því að sletta á hann raksápu. Wendy Deng, hin kínverska eiginkona Murdochs eldri, brá hins vegar snöggt við, stökk upp og sló til árásarmannsins. Yfirheyrslunni var haldið áfram stundarfjórðungi síðar, þegar maðurinn hafði verið handtekinn og Murdoch þurrkað af sér sápufroðuna.

gudsteinn@frettabladid.is



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×