Fótbolti

Eiður Smári fékk stórstjörnumóttökur á flugvellinum í Aþenu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Tíunda félagið AEK verður tíunda atvinnumannafélagið sem Eiður Smári spilar fyrir.
Tíunda félagið AEK verður tíunda atvinnumannafélagið sem Eiður Smári spilar fyrir. Mynd/E.Stefán
Eiður Smári Guðjohnsen fékk sannkallaðar stórstjörnumóttökur á flugvellinum í Aþenu í gær þegar hann kom til Grikklands. Hann mun að öllum líkindum skrifa undir samning við AEK í dag. Um tvö þúsund manns tóku á móti honum á flugvellinum þar sem fólkið söng sigursöngva, hyllti nýju hetjuna sína og kallaði: „Guðjohnsen, Guðjohnsen.“

Arnar Grétarsson, yfirmaður knattspyrnumála hjá AEK Aþenu, flaug með Eiði Smára og föður hans, Arnóri Guðjohnsen, til Grikklands í gær. „Við vorum bara að koma hingað suður eftir og markmiðið er að hann fari í læknisskoðun á morgun [í dag] og ef allt gengur að óskum, sem ég á von á, þá á hann að skrifa undir eftir hádegi á morgun,“ sagði Arnar Grétarsson þegar Fréttablaðið náði í hann í gærkvöldi.

„Auðvitað eru þetta formsatriði en það þarf að klára þau. Maður hefur séð alls konar hluti koma upp en ég er ekki að búast við einu eða neinu. Ég vil ekki segja neitt fyrr en málin eru afgreidd og það er búið að skrifa undir,“ segir Arnar. „Ég á samt von á því að við göngum frá þessu um þrjúleytið á okkar tíma eða um hádegisbilið á Íslandi,“ sagði Arnar sem átti alveg eins von á því að það yrði tekið á móti Eiði eins og þjóðhöfðingja.

„Það er mjög mikill áhugi á komu Eiðs. Þetta eru alveg spes móttökur sem hann er búinn að fá enda átti ég líka von á því. Drengurinn er með mjög flottan feril og er frábær leikmaður. Þetta er því ekkert skrítið,“ segir Arnar en hann sá ekki á Eiði Smára að honum hefði brugðið eitthvað við móttökurnar.

„Ég sat með Eiði í bílnum. Hann hefur örugglega einhvern tímann lent í einhverju álíka en kannski ekki alveg svona. Það er rosalegur áhugi á fótbolta hérna og Grikkirnir eru hálfklikkaðir með þetta. Alltaf þegar koma einhver nöfn þá verður allt hálfbrjálað,“ sagði Arnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×