Fótbolti

Grunaði FIFA um græsku

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Jákup hefur vakið heimsathygli fyrir afskipti sín af styrkleikalista FIFA. Hann grunaði að ekki væri allt með felldu hjá FIFA.
Jákup hefur vakið heimsathygli fyrir afskipti sín af styrkleikalista FIFA. Hann grunaði að ekki væri allt með felldu hjá FIFA.
Færeyingar eiga landa sínum, Jákupi Emil Hansen, 28 ára gömlum stjórnmálafræðinema, mikið að þakka. Þökk sé útreikningum og þrautseigju hans neyddist Alþjóðaknattspyrnusambandið, FIFA, til þess að leiðrétta heimslista sinn. Færeyjar fóru upp fyrir Wales og bendir flest til þess að frændur okkar verði af þeim sökum í 5. styrkleikaflokki þegar dregið verður í undankeppni HM 2014 í Brasilíu í lok mánaðarins.

Eftir frækinn 2-0 sigur Færeyinga á Eistum 7. júní fór Jákup að grennslast fyrir um hvaða þýðingu sigurinn hefði fyrir þjóð sína á heimslistanum. Hann reiknaði sjálfur og vafraði um netið þar sem hann fann bloggsíðuna www.football-rankings-info sem staðfesti útreikninga hans. Færeyjar ættu að vera fyrir ofan Wales á heimslistanum sem næmi 0,07 stigum.

„Ég er heillaður af Andrew Jennings, blaðamanni BBC, sem hefur verið að skoða spillingu innan FIFA. Ég sagði færeyska knattspyrnusambandinu 10. júní að það væri mögulegt að Wales yrði ranglega fyrir ofan Færeyjar á næsta lista. Wales ætti marga leikmenn í ensku úrvalsdeildinni en við værum bara hálfatvinnumenn. Hugsanlega teldi FIFA það sér í hag að halda Wales fyrir ofan Færeyjar á listanum," segir Jákup og ber greinilega lítið traust til FIFA.

Listinn var opinberaður 29. júní og Jákupi blöskraði þegar hann sá að löndin deildu 114. sæti en Wales var raðað fyrir ofan Færeyjar. Jákup setti sig aftur í samband við færeyska knattspyrnusambandið. Ekkert svar barst.

„Þau hafa líklega haldið að ég væri haldinn ofsóknaræði," segir Jákup sem lét ekki deigan síga. Ef hann ætti ekki að ganga í málið, hver þá?

Hann sendi útreikninga sína á færeysku fjölmiðlana en blaðamaðurinn Rolant Waag Dam var sá eini sem sýndi málinu áhuga. Með hans hjálp fór boltinn að rúlla. Loksins bárust svör frá knattspyrnusambandi Færeyja sem sagði að málið væri í skoðun hjá FIFA.

Skömmu síðar sendi FIFA frá sér leiðréttingu á listanum og sagði villuna hafa legið í því að liðum sem voru jöfn að stigum hefði ekki verið raðað í stafrófsröð. Sú villa hefði verið á fleiri stöðum á listanum.

FIFA gaf þó ekki upp hvor þjóðin yrði í efri styrkleikaflokknum. Það verður ekki ljóst fyrr en kemur að drættinum að þeirra sögn. Jákup var allt annað en sáttur við þessa tilkynningu og hafði áhyggjur af því hversu litla athygli leiðréttingin fékk í heimspressunni. Færeyjar væru 0,07 stigum ofar á listanum. Þeir ættu að vera í efri flokknum.

„Því hafði ég samband við landsliðsþjálfarann Brian Kerr sem svaraði mér um hæl. Hann var sammála mér hversu mikilvægt væri að málið kæmist í heimspressuna. Hann sendi upplýsingarnar frá mér á tengiliði sína í fjölmiðlaheiminum og eftir það fóru hlutirnir að gerast. Fjölmiðlar um alla Evrópu hafa fjallað um málið. Ég hef meira að segja séð fréttir um málið í Túnis og Indlandi," segir Jákup.

FIFA hefur legið undir mikilli gagnrýni undanfarin misseri, meðal annars vegna ásakana um spillingu. Sepp Blatter, forseti FIFA, hefur lofað bættum vinnubrögðum og gagnsæi hjá sambandinu.

„Ég er enginn stærðfræðingur. Ég vildi bara koma öllum í skilning um að listinn væri ekki réttur miðað við aukastafi. FIFA hefur breytt listanum en segir það vera vegna stafrófsraðar. Þeir hafa lofað betrumbót og gagnsæi í vinnubrögðum. Ef þeir meina það eiga þeir auðvitað að setja Færeyjar í 5. styrkleikaflokk," segir Jákup sem hefur skemmtilega tengingu við Ísland. Mágur hans er Osbjørn Jacobsen einn arkitekta Hörpunnar.

Dregið verður í undankeppninni 30. júlí. Ljóst er að Ísland verður í 6. styrkleikaflokki en fróðlegt verður að sjá í hvorn flokkinn FIFA setur frændur okkar Færeyinga.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×