Fótbolti

Kolbeinn skrifar undir hjá stórliði Ajax í dag

Stefán Árni Pálsson skrifar
Kolbeinn, sem hér skorar fyrir AZ Alkmaar síðasta vetur, verður fyrsti Íslendingurinn sem spilar fyrir stórlið Ajax.nordic photos/afp
Kolbeinn, sem hér skorar fyrir AZ Alkmaar síðasta vetur, verður fyrsti Íslendingurinn sem spilar fyrir stórlið Ajax.nordic photos/afp
Íslenska ungstirnið, Kolbeinn Sigþórsson, skrifar í dag undir í fjögurra ára samning við hollensku meistarana í Ajax, en Kolbeinn hefur verið á mála hjá hollenska félaginu, AZ Alkmaar, síðan árið 2007 og staðið sig vonum framar.

Kolbeinn gerði 15 mörk fyrir AZ Alkmaar á síðustu leiktíð og hefur verið orðaður við Ajax undanfarna mánuði.

Þetta mun vera frábært tækifæri fyrir þennan snjalla framherja og varla hægt að ímynda sér betri stað til að bæta sig sem knattspyrnumann, en Kolbeinn verður fyrsti Íslendingurinn til að leika fyrir stórlið Ajax.

Fréttablaðið náði tali af Andra Sigþórssyni, bróður Kolbeins og jafnframt umboðsmanni leikmannsins, í gær þar sem þeir bræður voru í þann mund að taka á loft til Amsterdam.

„Við erum rétt í þessu að taka á loft til Hollands, en Kolbeinn mun fara í læknisskoðun á morgun og í framhaldinu af því skrifa undir fjögurra ára samning við Ajax,“ staðfesti Andri Sigþórsson í samtali við Fréttablaðið í gær.

„Þetta er alveg frábært tækifæri fyrir Kolbein og við erum í raun í skýjunum. Kaupverðið er ekki alveg komið á hreint en liðin eiga formlega eftir að gefa út yfirlýsingu um verðmiðann,” sagði Andri en samkvæmt hollenskum fjölmiðlum greiðir Ajax 665 milljónir íslenskra króna fyrir íslenska landsliðsmanninn. Kolbeinn átti eitt ár eftir af samningi sínum við Alkmaar.

„Það er allt til alls hjá þessum klúbbi og aðstæður alveg til fyrirmyndar, þetta var í raun aldrei spurning hjá Kolbeini að fara þangað,“ sagði Andri.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×