Innlent

„Þetta var líkt og eins manns veröld“

Ljósafellið varð allt þakið ösku skömmu eftir að gosið. 
mynd/oddur sveinsson
Ljósafellið varð allt þakið ösku skömmu eftir að gosið. mynd/oddur sveinsson
asdf
Áhöfnin á Ljósafelli fann vel fyrir öskunni úr Grímsvötnum, þrátt fyrir að vera tæpar 40 mílur frá landi. Skipið varð allt þakið ösku en hún er nú að mestu horfin eftir mikla hjálp frá sjónum.

„Það var orðið verulega svart. Þetta var líkt og eins manns veröld,“ segir Hávarður Helgason skipstjóri. „Sem betur fer stóð þetta ekki lengi hjá okkur. En við urðum óskaplega fegnir þegar þetta var búið.“

Ljósafell, ásamt tveimur öðrum skipum, var úti á suðvesturhorninu á Mýrargrunni á sunnudaginn síðastliðinn. Tveir aðrir togarar voru nær landi og segir Hávarður að áhafnir þeirra hafi lýst ástandinu eins og væri svartasti vetrarbylur um hábjartan dag. Erfitt hafi verið að greina umhverfið í kring og nærliggjandi skip hafi vart verið sjáanleg.

„Við sáum rétt móta fyrir öðrum skipum, en greindum ekki lengra en um 2 til 3 mílur út,“ segir hann.

Áhöfnin gerði ráðstafanir þegar askan lagðist yfir og útbjó ryksíur á öll inntök skipsins. Grímum og gleraugum var deilt á skipsverja, sem eru fimmtán. „Við sluppum þó betur en fólkið á landinu. Þessi stutta heimsókn sem við fengum frá öskunni lagðist yfir okkur hægt og rólega, en hún var andskoti þrúgandi meðan á henni stóð,“ segir Hávarður. „Það er skelfileg tilhugsun að lenda í þeirra aðstæðum. Það þarf virkilega mikinn drifkraft til að standa það af sér.“- sv



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×