Innlent

Áfangaheimili Ekron lokað

Áfangaheimilinu, sem staðsett er í Breiðholti, hefur nú verið lokað.
Áfangaheimilinu, sem staðsett er í Breiðholti, hefur nú verið lokað.
Stjórn Ekron, kristilegra samtaka sem annast meðal annars starfsþjálfun og endurhæfingu óvirkra vímuefnaneytenda, hefur ákveðið að loka áfangaheimili samtakanna. Þetta staðfestir Hjalti Kjartansson, forstöðumaður Ekron, en hann var í síðasta mánuði kærður til lögreglu fyrir meint kynferðisbrot.

Að sögn Önnu Sigrúnar Baldursdóttur, aðstoðarmanns Guðbjarts Hannessonar velferðarráðherra, er ráðuneytið þegar byrjað að vinna í því að finna nýtt heimili fyrir skjólstæðinga áfangaheimilisins, en þar er pláss fyrir tíu til tólf manns. Samningur ráðuneytisins við Ekron rennur út í lok maí.

Ekron rekur þjálfunarstarfsemi sína á Grensásvegi 16, en áfangaheimilið er í Breiðholti. Það var eingöngu ætlað þeim sem voru í starfsþjálfun og endurhæfingu í Ekron, að því er fram kemur á heimasíðu samtakanna.

Ríkið og tiltekin sveitarfélög hafa styrkt samtökin undanfarin ár með þjónustusamningum.

Kona sem dvaldi á áfangaheimilinu kærði forstöðumanninn fyrir að hafa við sig samfarir. Samkvæmt upplýsingum frá lögreglu er rannsókn málsins vel á veg komin.

Hjalti Kjartansson vildi lítið tjá sig við Fréttablaðið um ástæður lokunar áfangaheimilisins þegar eftir því var leitað, að öðru leyti en því að þar hafi verið „alls konar viðbjóður í gangi, trúarofbeldi og rugl,“ eins og hann orðaði það. Þegar hann var spurður hver hefði staðið fyrir því svaraði hann: „Sú sem fór fyrir því,“ en kvað að öðru leyti ekki „tímabært“ að tjá sig um málið. Hann kvaðst tilbúinn til að ræða við Fréttablaðið eftir hálfan mánuð, þrjár vikur.

Spurður hvort honum bæri ekki skylda til að upplýsa um málefni Ekron, þar sem samtökin væru með þjónustusamning við velferðarráðuneytið sagði Hjalti að samtökin væru allt annað en áfangaheimilið. Þetta tvennt væri óskylt, þótt hvort tveggja væri á sömu vefsíðu og kennt við Ekron, sem skráð er eigandi áfangaheimilisins.

„Það hefur aldrei komið svo mikið sem króna, hvorki frá ríki né sveitarfélögum, inn í þetta áfangaheimili,“ sagði hann. Aðspurður kvaðst hann ekki geta gefið upp hver færi með yfirstjórn Ekron nú því það væri verið að „rótera“ í því máli. - jss



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×