Fótbolti

1500 manns bíða eftir Eiði Smára á flugvellinum

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Það er óhætt að segja að Grikkir bíði spenntir eftir komu Eiðs Smára Guðjohnsen til Aþenu. Gríska fréttasíðan www.aek365.gr er með beina lýsingu frá flugvellinum og eru yfir eitt þúsund stuðningsmenn mættir á flugvöllinn að þeirra sögn. Stuðningsmönnum fjölgar með hverri mínútunni.

Flugvélin með feðgana Arnór og Eið Smára Guðjohnsen lendir í Aþenu um fjögurleytið í dag. Með í för er Arnar Grétarsson yfirmaður knattspyrnumála hjá gríska félaginu. Takist samningar verður Eiður Smári annar Íslendingurinn sem gengur til liðs við AEK á innan við viku. Blikinn Elfar Freyr Helgason skrifaði undir samning í síðustu viku.

Koma Eiðs Smára er af fjölmörgum grískum fjölmiðlum talin heitasta íþróttafrétt sumarsins þar í landi. Eiður Smári er sagður eitt stærsta nafnið sem komið hefur í gríska fótboltann.

Í spilaranum hér að ofan má sjá hetjumyndband af Eiði Smára sem notandinn AEKTV hefur tekið saman.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×