Íslenski boltinn

Rúnar veit af áhuga Lokeren en ætlar ekki að fara frá KR

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Rúnar Kristinsson, þjálfari KR.
Rúnar Kristinsson, þjálfari KR. Nordic Photos / Getty Images
Rúnar Kristinsson, þjálfari KR, veit af áhuga belgíska félagsins Lokeren á sér en segir ekkert breyta því að hann muni þjálfa KR nú í sumar.

Sagt var frá því í belgískum fjölmiðlum í gær að Rúnar væri einn þeirra sem kæmi til greina sem aðstoðarþjálfari hjá Lokeren en hann lék sjálfur með félaginu við góðan orðstír á sínum tíma.

„Eftir því sem ég best veit var aðstoðarþjálfari að hætta hjá félaginu og því voru einhverjar vangaveltur uppi um eftirmann hans. Mér bárust spurnir af því að mitt nafn hafi borið á góma en lengra náði það ekki.“

„Það hefur ekkert formlegt komið upp á borðið - engin tilboð eða neitt. Ég veit svo sem af smá áhuga en þetta er ekki á svo alvarlegu stigi. Ég mun þjálfa KR í sumar og mun það ekki breytast,“ sagði Rúnar við Vísi.

Hann segist þó ekki útiloka neitt fyrir framtíðina. „Eins og er þá ætla ég að einbeita mér að KR,“ sagði Rúnar. „En ef maður hefur áhuga á því að starfa í þjálfun í framtíðinni vill maður reyna að taka það alla leið og gera það líka erlendis ef tækifæri gefst. Ég er þó alls ekki að hlaupa frá KR.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×