Enski boltinn

Kuszczak vill ræða um framtíðina

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Pólski markvörðurinn Tomasz Kuszczak vill fá að ræða við forráðamenn Manchester United um framtíð sína hjá félaginu.

Hann var í fyrsta sinn í byrjunarliði United í deildarleik gegn West Brom um helgina en liðið vann þá sinn annan leik á útivelli á tímabilinu.

Það mun þó væntanlega hafa lítið að segja þar sem búist er við því að Edwin van der Sar snúi aftur í mark United þegar að liðið mætir Stoke annað kvöld.

Van der Sar mun líklega hætta eftir að tímabilinu lýkur en Alex Ferguson, stjóri United, keypti í haust Danann Anders Lindegaard.

„Ég þarf að fá að vita hvað stjórinn vill gera - hvort hann ætlar að selja mig eða nota mig. Ég veit ekki hvað hann ætlar sér," sagði kappinn í samtali við enska fjölmiðla.

„Edwin er orðinn fertugur en hver veit hversu lengi hann ætlar að spila. Það getur verið að þetta verði hann síðasta tímabil en félag sem er jafn stórt og United þarf að bæta við sig reglulega ungum markvörðum."

„Ég vil spila en það er ekki undir sjálfum mér komið. Ég hef minn metnað eins og allir aðrir. Ég vil spila. Ég hef setið á bekknum í fimm ár en það skiptir engu - ég er tilbúinn til að spila reglulega."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×