Fótbolti

Norður-Írar gerðu Íslandi frábæran greiða og unnu Norðmenn

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Íslenska landsliðið er í góðri stöðu í undankeppninni fyrir EM 2013.
Íslenska landsliðið er í góðri stöðu í undankeppninni fyrir EM 2013. Mynd/Daníel
Sigurður Ragnar Eyjólfsson, landsliðsþjálfari kvenna, hugsar sjálfsagt afar hlýtt til Norður-Írlands í kvöld en liðið vann þá glæsilegan 3-1 sigur á Noregi í undankeppni EM 2013.

Noregur er helsti keppinautur Íslands um efsta sæti riðilsins í undankeppninni en Ísland vann Noreg með einmitt sama mun, 3-1, í leik liðanna í haust.

Stelpurnar okkar gerðu hins vegar markalaust jafntefli við Belgíu í næsta leik en náðu sér svo aftur á strik með því að vinna Ungverjaland og Norður-Írland á útivelli í síðasta mánuði.

Með sigri Norður-Írlands í kvöld aukast líkur Íslands talsvert á sæti í úrslitakeppninni sem fer fram í Svíþjóð sumarið 2013. En þó eru margir leikir eftir í riðlinum og ljóst að í honum eru mörg sterk lið sem geta hrifsað stig hvert af öðru.

Sigur Norður-Íra í kvöld þýðir að Ísland, sem er á toppi riðilsins, er með fimm stiga forystu á Belgíu og sex stiga forystu á bæði Noreg og Norður-Írland. Belgar og Norðmenn eiga þó leik til góða og Norður-Írar tvo leiki til góða.

Fyrr í dag vann svo Belgía 5-0 sigur á Búlgaríu.

Næstu leikir í riðlinum fara fram á miðvikudaginn. Þá mætast Búlgaría og Belgía öðru sinni en Ungverjaland tekur á móti Norður-Írlandi.

Ísland mætir næst Belgíu á útivelli þann 4. apríl næstkomandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×