Enski boltinn

Huddersfield hefur spilað 42 leiki í röð án þess að tapa

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Lee Clark. Þessi fyrrverandi leikmaður Newcastle er einn efnilegasti knattspyrnustjóri Englands í dag.nordicphotos/getty
Lee Clark. Þessi fyrrverandi leikmaður Newcastle er einn efnilegasti knattspyrnustjóri Englands í dag.nordicphotos/getty
Harðjaxlinn Lee Clark hefur náð frábærum árangri með Huddersfield, en liðið hefur undir stjórn hans ekki enn tapað deildarleik á árinu 2011. Ef liðið tapar ekki fyrir Notts County í ensku C-deildinni um helgina slær það 33 ára gamalt met Nottingham Forest, sem lék 42 leiki í röð án taps undir stjórn hins goðsagnakennda Brians Clough.

Metið stendur í ensku deildakeppninni, The Football League, og á því ekki við ensku úrvalsdeildina sem var stofnuð árið 1992. Þar á Arsenal metið, en liðið lék 49 leiki í röð án taps frá 2003 til 2004.

Huddersfield jafnaði met Nottingham Forest í síðustu umferð, en þá gerði liðið 1-1 jafntefli við Walsall á heimavelli.

Það hefur þó verið helsta vandamál Hudderfield að af þessum 42 taplausu leikjum eru átján jafntefli. Liðið er ekki á toppi C-deildarinnar í Englandi, heldur í öðru sæti og fimm stigum á eftir toppliði Charlton.

Huddersfield tapaði síðast fyrir Southampton, 4-1, hinn 28. desember í fyrra en síðarnefnda liðið komst upp í B-deildina og trónir nú á toppi hennar.

Clark hefur vakið athygli stærri liða vegna þessa góða gengis og var síðast sterklega orðaður við B-deildarlið Leicester sem rak Sven-Göran Eriksson á dögunum. Clark steig fram á sjónarsviðið og sagðist ekki hafa í hyggju að fara frá Huddersfield.

„Það eina sem ég hef áhuga á er að halda áfram að sinna því verkefni sem hafið er hjá Huddersfield,“ sagði Clark. „Ég tek því sem hrósi ef önnur félög hafa áhuga á mér en ekkert meira en það.“

Clark lék sem atvinnumaður í sextán ár í Englandi, með Newcastle, Sunderland og Fulham. Hann hefur starfað sem þjálfari frá 2006 en tók við Huddersfield í desember 2008. Hann fékk Jóhannes Karl Guðjónsson til félagsins sumarið 2010 en gaf það út fyrir tímabilið í ár að Jóhannes væri ekki lengur í hans plönum.

Jóhannes Karl er enn samningsbundinn Huddersfield en ætlar að spila með ÍA næsta sumar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×