Enski boltinn

United vann nauman sigur á Swansea

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Chicharito fagnar marki sínu í dag.
Chicharito fagnar marki sínu í dag. Nordic Photos / Getty Images
Manchester United náði að halda í við Manchester City í toppbaráttu ensku úrvalsdeildarinnar með naumum 1-0 útisigri á Swansea í lokaleik dagsins í enska boltanum.

Javier Hernandez skoraði eina mark leiksins strax í upphafi en heimamenn voru þó síst lakari aðilinn í leiknum. United komst svo nálægt því að bæta við undir lok leiksins en allt kom fyrir ekki.

United er því með 29 stig í öðru sæti deildarinnar, fimm stigum á eftir Manchester City sem vann 3-1 sigur á Newcastle fyrr í dag. City er níu stigum á undan Newcastle og tólf á undan Chelsea, Tottenham og Arsenal.

Heimamenn byrjuðu ágætlega í leiknum og ætluðu greinilega að selja sig dýrt. Swansea hafði fyrir leikinn staðið sig frábærlega á heimavelli en nýliðarnir hafa komið skemmtilega á óvart á tímabilinu.

En United sýndi fljótt mátt sinn og komst yfir með marki Javier Hernandez eftir rúmlega tíu mínútna leik. Ryan Giggs, sem var að spila í sínu heimalandi, vann boltann af Angel Rangel og gaf hann boltann inn á teig þar sem að Hernandez var mættur og skoraði af stuttu færi.

Swansea lét þó ekki segjast og fékk ágæt færi til að jafna leikinn. Annars var leikurinn þó nokkuð rólegur en undir lok fyrri hálfleiksins komst United nálægt því að skora aftur er Hernandez komst einn inn fyrir vörn heimamanna. Hann ákvað þó að reyna að gefa á Wayne Rooney í stað þess að skjóta sjálfur en sendingin hans var slök og sóknin fjaraði út.

Hernandez kom svo boltanum í netið í upphafi seinni hálfleiksins en hann var dæmdur rangstæður, réttilega. Heimamenn voru áfram nokkuð sprækir en án þess þó að skapa sér mörg hættuleg færi.

Phil Jones komst svo nálægt því að skora sitt fyrsta mark á ferlinum en skot hans hafnaði í stönginni seint í leiknum. United sótti svo stíft í uppbótartímanum en niðurstaðan varð 1-0 sigur þeirra rauðklæddu.

Þar með minnkaði United forystu City á toppnum aftur í fimm stig. Þessi tvö lið virðast í nokkrum sérflokki eins og toppbaráttan lítur út í dag.

Staðan í ensku úrvalsdeildinni




Fleiri fréttir

Sjá meira


×