Enski boltinn

Ferguson óánægður með Liverpool og ummæli Poyet

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Alex Ferguson, stjóri Manchester United.
Alex Ferguson, stjóri Manchester United.
Alex Ferguson, knattspyrnustjóri Manchester United, vildi lítið segja um kynþáttaníðsdeiluna á milli Luis Suarez og Patrice Evra en sagði þó að Liverpool hafa ekki farið eftir fyrirmælum enska knattspyrnusambandsins í málinu. Hann var einnig ósáttur við ummæli Gus Poyet.

Enska knattspyrnusambandið ákvað í vikunni að kæra Suarez, leikmann Liverpool, fyrir að nota niðrandi orðalag um United-manninn Patrice Evra. Suarez hefur ávallt neitað sök en félögin bæði hafa veitt sínum mönnum sinn stuðning.

Ferguson sat fyrir svörum á blaðamannafundi í gær en vildi ekki tjá sig efnislega um deiluna. „Enska knattspyrnusambandið hefur beðið okkur um að tjá okkur ekki um málið og við höfum farið eftir þeim fyrirmælum," sagði Ferguson. „Mér finnst að Liverpool hafi verið að leka upplýsingum um málið undanfarnar tvær vikur en það er eitthvað sem að sambandið verður að eiga við."

Poyet er knattspyrnustjóri Brighton & Hove Albion, sem leikur í ensku B-deildinni, en hann sagði í gær Patrice Evra vera grenjuskjóðu sem hefði ekki átt að kvarta undan Suarez. Poyet og Suarez eru báðir Úrúgvæjar.

„Ummæli Gus Poyet komu mér meira á óvart. Ég tel ummælin afar óviðeigandi þegar fólk um allan heim hefur verið að fordæma kynþáttaníð og mér fannst hann velja rangan tíma til að láta þetta frá sér," sagði Ferguson.

„Ég skil það vel að hann vilji verja landa sinn en hann verður að setja aðeins meiri hugsun í sínar aðgerðir. Gagnrýni hans á Evra var bjánaleg."

Rio Ferdinand, leikmaður United, var duglegur að tjá sig um fræg ummæli Sepp Blatter, forseta FIFA, í vikunni og sagði ummæli Poyet „fornaldarlegt tal".




Fleiri fréttir

Sjá meira


×