Innlent

Ógeðfelld pólitísk réttarhöld

Lillý Valgerður Pétursdóttir skrifar
Geir H. Haarde.
Geir H. Haarde.
Réttarhöldin yfir Geir H. Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra og formanni Sjálfstæðisflokksins, eru ógeðfelld pólitísk réttarhöld og lýsir Sjálfstæðisflokkurinn yfir fullum stuðningi við hann í tillögu að stjórnmálaályktun landsfundar Sjálfstæðisflokksins sem kynntar voru fyrir hádegi.

Fertugasti landsfundur Sjálfstæðisflokksins stendur yfir í Laugardalshöllinni. Fyrir hádegið kynnti Illugi Gunnnarsson, þingmaður flokksins, tillögu að stjórnmálaályktun landsfundarins og fóru síðan umræður um hana. Tillagan er byggð á drögum frá málefnanefndum flokksins. Þar lýsir flokkurinn meðal annars yfir stuðningi við Geir H. Haarde fyrrverandi formann flokksins og forsætisráðherra.

,, Í stað þess að leiða raunverulega endurreisn hefur ríkisstjórnin alið á úlfúð og klofningi í samfélaginu, meðal annars með því að skipuleggja pólitísk réttarhöld í skjóli Alþingis. Ákærur á hendur Geir H. Haarde, fyrrverandi formanni Sjálfstæðisflokksins og fyrrverandi forsætisráðherra, eru ógeðfelld pólitísk réttarhöld, skipulögð af pólitískum andstæðingum Sjálfstæðisflokksins. Landsfundur lýsir yfir fullum stuðningi við Geir H. Haarde og bendir um leið á hversu alvarlegt fordæmi Alþingi hefur sett með ákvörðun sinni um pólitíska málshöfðun" sagði Illugi Gunnarsson.

Geir Hilmar Haarde, fyrrverandi formaður Sjálfstæðisflokksins, ávarpar landsfundinn klukkan tvö í dag. Frambjóðendur til formanns og varaformanns Sjálfstæðisflokksins flytja síðan ræður sínar en þau Bjarni Benediktsson, formaður flokksins, og Hanna Birna Kristjánsdóttir sækjast bæði eftir því að gegna formennsku í flokknum. Sjálft formannskjörið fer hins vegar ekki fram fyrr en eftir hádegi á morgun.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.