Enski boltinn

City virðist óstöðvandi - fyrst til að vinna Newcastle

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Balotelli fagnar, já fagnar, marki sínu í dag.
Balotelli fagnar, já fagnar, marki sínu í dag. Nordic Photos / Getty Images
Manchester City vann í dag enn einn sigurinn í ensku úrvalsdeildinni, í þetta sinn gegn Newcastle í toppslag deildarinnar. Newcastle tapaði þar með sínum fyrsta deildarleik á tímabilinu en City trónir á topppi deildarinnar með væna forystu.

Mario Balotelli, Micah Richards og Sergio Agüero skoruðu mörk City í dag en Balotelli og Agüero skoruðu báðir úr vítaspyrnu. Dan Gosling skoraði svo mark Newcastle seint í leiknum.

Roberto Mancini, stjóri City, ákvað að hvíla Spánverjann David Silva í dag þar sem liðið á mikilvægan leik gegn Napoli í Meistaradeild Evrópu í nsætu viku. Mario Balotelli og Sergio Agüero voru þó í fremstu víglínu hjá City.

Hjá Newcastle var Hatim Ben Arfa í byrjunarliði í fyrsta sinn síðan hann fótbrotnaði illa þann 3. október í fyrra, einmitt á heimavelli Manchester City, eftir tæklingu Nigel de Jong sem var einnig í byrjunarliði City.

City stjórnaði leiknum strax frá fyrstu mínútu og komust gestirnir frá Newcastle varla yfir miðju í upphafi leiksins. Micah Richards var næstum búinn að skapa hættulegt færi í upphafi leiksins fyrir City en varnarmaðurinn öflugi, Steven Taylor, náði að komast fyrir fyrirgjöf hans.

Balotelli komst svo nálægt því að skora er hann skallaði að marki eftir fyrirgjöf James Milner frá hægri en hollenski markvörðurinn Tim Krul varði boltann glæsilega í horn.

En Newcastle fékk líka sín færi og á 34. mínút var Demba Ba nálægt því að skora enda í frábæru færi eftir laglegan undirbúning Ben Arfa. En Joe Hart, markvörður City, er líka öflugur og varði skot Ba í horn.

Heimamenn komust svo loksins yfir undir lok fyrri hálfleiks og var sjálfur Mario Balotelli þar að verki með marki úr vítaspyrnu. Vítið var dæmt eftir að Ryan Taylor, varði skot Yaya Toure að marki með höndinni. Richards náði svo að bæta öðru marki við stuttu síðar og aftur var Ryan Taylor sökudólgurinn. Hann missti saklausa sendingu Sergio Agüero inn fyrir sig og var eftirleikurinn auðveldur fyrir Richards sem skoraði af stuttu færi.

Fjörið hélt svo áfram í seinni hálfleik og átti Ben Arfa til að mynda skot í stöng þegar um stundarfjórðungur var liðinn af síðari hálfleiknum. En það var þó City fyrst og fremst sem stjórnaði leiknum og liðið skoraði sitt þriðja mark úr vítaspyrnu sem var dæmd eftir að Ben Arfa hafði brotið á Richards. Sergio Agüero skoraði úr vítaspyrnunni, þar sem Mario Balotelli fór af velli fyrir David Silva stuttu áður.

Dan Gosling náði að klóra í bakkann fyrir gestina undir lokin, er hann fylgdi eftir skoti Demba Ba sem var varið. Markið kom þó allt of seint og sigur City-manna löngu tryggður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×