Enski boltinn

Arsenal vann en Cesc Fabregas og Theo Walcott meiddust

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sebastien Squillaci tryggði Arsenal þrjú stig í kvöld.
Sebastien Squillaci tryggði Arsenal þrjú stig í kvöld. Mynd/AP
Arsenal vann 1-0 sigur á Stoke á Emirates-leikvanginum í kvöld í leik liðanna í ensku úrvalsddildinni en með þessum sigri minnkaði Arsenal forskot Manchester United á toppnum í aðeins eitt stig. United á þó leik inni á Arsenal.

Franski miðvörðurinn Sebastien Squillaci hefur mátt þola harða gagnrýni frá stuðningsmönnum Arsenal á tímabilinu en hann var hetja liðsins í kvöld og skoraði sigurmarkið í þessum mikilvæga sigri.

Eina mark leiksins kom eftir aðeins tæpar átta mínútur þegar Squillaci skoraði með skalla úr markteig eftir sendingu frá Nicklas Bendtner og hornspyrnu frá Jack Wilshere.

Arsenal varð hinsvegar fyrir áfalli þegar Cesc Fabregas varð að fara meiddur af velli eftir aðeins 14 mínútna leik. Andrei Arshavin kom inn á fyrir hann en Arsenal-menn virtust stuðast nokkuð við meiðsli fyrirliðans því þeir náðu sér aldrei almennilega á strik eftir það.

Það er ekki ljóst hversu alvarleg meiðslin eru en það leit þó út fyrir að Arsene Wenger, stjóri Arsenal, hafi ekki viljað taka neina áhættu og tók hann því Fabregas strax útaf. Það léttist ekki brúnin á Frakkanum þegar Theo Walcott meiddist líka í seinni hálfleiknum.

Stoke tapaði þarna sínum fjórða útileik í röð og hefur jafnframt aðeins náð að vinna einn af síðustu fimm leikjum sínum í deildinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×