Íslenski boltinn

Gunnar Heiðar: Ég þarf að finna gleðina aftur

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Gunnar Heiðar við undirskriftina í dag.
Gunnar Heiðar við undirskriftina í dag.

Gunnar Heiðar Þorvaldsson er mjög ánægður með að vera kominn aftur til Eyja en hann skrifaði undir fjögurra ára samning við ÍBV í dag.

"Þetta hefur verið í pípunum í smá tíma og Eyjamenn hafa alltaf verið í sambandi við mig. Ég skoðaði nokkur tilboð að utan en það var ekkert sem mér fannst nógu spennandi," segir Gunnar við Vísi en hann segist líka hafa komið heim af fjölskylduástæðum.

"Þar sem konan mín er ólétt og á von á sér í apríl ákváðum við að skella okkur til Eyja. Það er ein aðalástæðan fyrir þessari ákvörðun. Við vorum ekki komin með neitt fast og því var fínt að koma heim. Við sjáum svo hvað setur í kjölfarið eftir sumarið," sagðu Gunnar sem gerir ekki ráð fyrir því að ÍBV standi í vegi fyrir sér komi aftur freistandi tilboð að utan.

"Hugurinn stefnir vissulega út aftur. Ég er ekki kominn heim til þess að spila með vinstri. Ekki bara einhver gömul hetja sem þykist geta eitthvað. Það er ekki þannig. Þetta verður gaman," segir Gunnar en hann er líka að koma heim til þess að finna gleðina aftur.



Tekur á að lenda í mótlæti

"Síðustu tvö ár hafa verið mjög erfið fyrir mig og ég lítið fengið að spila. Þá spyr maður sig að því af hverju maður sé í þessu. Það tekur mjög á að lenda í svona mótlæti. Ég hef oft æft eins og geðsjúklingur til þess að sanna mig en svo hafa tækifærin ekki komið. Það tekur á en það sem drepur þig ekki styrkir þig. Það hefur gerst fyrir mig núna. Ég er skotheldur í dag," segir Gunnar og hlær við.

"Ég vil finna gleðina aftur og spila fótbolta. Það er líka gaman að taka þátt í þessu sem er að gerast í Eyjum. Ég er mikill Eyjamaður og sá hvað þetta var gaman síðasta sumar. Ég vildi endilega vera með," segir Gunnar Heiðar en það kom aldrei til greina hjá honum að semja við annað félag en ÍBV.

"Það er bara ÍBV hjá mér. Ég er það mikill Eyjamaður að það mun seint gerast að ég semji við annað lið á Íslandi en ÍBV."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×