Enski boltinn

Tevez gefur skýrslu í dag

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Samkvæmt enskum fjölmiðlum mun Carlos Tevez gefa skýrslu í rannsókn Manchester City á atvikum miðvikudagskvöldsins síðasta er Tevez mun hafa neitað að koma inn á sem varamaður í leik liðsins gegn Bayern München í Meistaradeild Evrópu.

Roberto Mancini, stjóri City, fullyrti eftir leik að Tevez hafi neitað að koma inn á sem varamaður í leiknum en því neitar Tevez sjálfur og ber við misskilningi.

Tevez hefur verið settur í tveggja vikna leyfi á meðan að málið er rannsakað en málið hefur vakið heimsathygli og telja flestir sparkspekingar að Tevez muni ekki spila aftur með félaginu.

Francis Lee, fyrrum leikmaður og stjórnarformaður félagsins, hvatti í gær forráðamenn City að reka Tevez frá félaginu. „Það er algerlega ófyrirgefanlegt að neita að koma inn á og spila. Þeir þurfa að sýna öðrum leikmönnum og öllum þeim sem ætla að spila með liðinu í framtíðinni að svona hegðun verði ekki liðin.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×