Fótbolti

Tim Howard brjálaður út í mótshaldara

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Tim Howard var heldur niðurlútur eftir úrslitaleikinn í nótt.
Tim Howard var heldur niðurlútur eftir úrslitaleikinn í nótt. Nordic Photos / AFP
Bandaríski markvörðurinn Tim Howard blótaði mótshöldurum Gold Cup-mótsins í sand og ösku fyrir að láta verðlaunaafhendinguna eftir úrslitaleik mótsins í nótt fara alla fram á spænsku.

Mótið var haldið í Bandaríkjunum en úrslitaleikurinn fór fram á hinum sögufræga Rose Bowl-leikvangi í Kaliforníu-fylki. Heimamenn mættu Mexíkóum í úrslitaleiknum en langflestir áhorfenda voru á bandi þeirra síðarnefndu.

Mexíkó vann leikinn, 4-2, og var verðlaunaafhendingunni stjórnað af þekktum mexíkóskum sjónvarpsmanni sem talaði einungis á spænsku, nema þegar að lið Bandaríkjanna tók við silfurverðlaunum sínum.

Concacaf, knattspyrnusamband mið- og norður-Ameríku, sá um skipulagningu mótsins og Howard lét forráðamenn sambandsins heyra það eftir leikinn.

„Concacaf ætti að skammast sín. Þetta er algjör svívirðing að verðlaunaafhendingin fór fram á spænsku. Ég er handviss um að ef leikurinn hefði farið fram í Mexíkóborg og við hefðum unnið hefði athöfnin ekki farið öll fram á ensku,“ sagði Howard við fjölmiðla eftir leikinn.

Talið er að um 90 prósent áhorfenda á leiknum hafi verið stuðningsmenn mexíkóska landsliðsins. Margir stuðningsmenn bandaríska liðsins kvörtuðu yfir því bæði fyrir leik og eftir hann að hafa ekki fengið tækifæri til að kaupa miða á leikinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×