Enski boltinn

Sir Alex hélt að Rooney væri að fara yfir til City

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Wayne Rooney.
Wayne Rooney. Mynd/Nordic Photos/Getty
Wayne Rooney segir það ekki rétt að hann hafi einhvern tímann hugsað sér að fara yfir til Manchester City. Hvort sem það er rétt eða ekki þá voru Sir Alex Ferguson og þjálfaralið hans sannfærðir um að framherjinn væri að fara yfir til nágrannanna þegar hann tilkynnti að hann væri á förum í október.

Þetta kemur fram í grein René Meulensteen, þjálfara hjá aðalliði Manchester United, í hollensku blaði. Meulensteen er sá fyrsti úr þjálfaraliði Sir Alex Ferguson sem tjáir sig um það sem gerðist á bak við tjöldin í þessari dramatísku viku á Old Trafford.

Meulensteen heldur því fram að Rooney hafi skipt um skoðun þegar hann fékk heimsókn frá 30 reiðum stuðningsmönnum sem mættu til þess að vara hann við að fylgja Carlos Tevez til Manchester City.

Hann segir að þetta hafi verið slæm lífsreynsla fyrir Rooney sem hafi skömmu síðar tekið u-beygju í málinu og á endanum skrifað undir nýjan fimm ára samning.

Meulensteen segir að sigurvegari málsins sé stjórinn Sir Alex en það er þó nokkuð ljóst að þeir 30 stuðningsmenn sem mættu með borðann „Ef þú ferð til City þá ertu dauður" monta sig örugglega yfir því að eiga stóran þátt í að Rooney spilar áfram í rauðu.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×