Gylfi Þór Sigurðsson kom inn á sem varamaður á 84. mínútu er Hoffenheim vann góðan 1-0 útisigur á Schalke í þýsku úrvalsdeildinni í dag.
Isaac Vorsah skoraði eina mark leiksins með skalla af stuttu færi strax á fjórðu mínútu leiksins.
Ryan Babel var í byrjunarliði Hoffenheim og var tekin af velli í blálokin.
Þetta var fyrsti sigur Hoffenheim í þýsku deildinni í síðustu sjö leikjum liðsins en liðið vann síðast 4-0 sigur á Frankfurt í lok nóvember. Hoffenheim er nú í áttunda sæti deildarinnar.
Dortmund er enn með ellefu stiga forystu á toppi deildarinnar eftir 3-0 útisigur á Wolfsburg sem hefur verið í frjálsu falli í Þýskalandi.
Bayern München vann 3-1 sigur gegn Bremen á útivelli eftir að hafa lent 1-0 undir.
Per Mertesacker kom Bremen yfir í upphafi síðari hálfleiks en Arjen Robben jafnaði metin um miðbik síðari hálfleiksins.
Mertesacker skoraði svo sjálfsmark á 76. mínútu áður en Miroslav Klose innsiglaði sigurinn með marki fjórum mínútum fyrir leikslok. Klose kom inn á sem varamaður í síðari hálfleik.
Þetta var fyrsta deildarmark Klose á leiktíðinni en hann skoraði einnig mark fyrir Bayern í Meistaradeild Evrópu í september síðastliðnum.
Hann er þekktari fyrir að skora fyrir landsliðið en hann hefur skorað sex mörk með þýska landsliðinu síðan að tímabilið hófst í Þýskalandi.
Bayern komst upp í fjórða sæti með sigrinum og upp fyrir Hannover sem tapaði, 2-0, fyrir Leverkusen í gær.
Úrslit dagsins:
Wolfsburg - Dortmun 0-3
Bremen - Bayern 1-3
Nürnberg - Hamburg 2-0
Schalke - Hoffenheim 0-1
St. Pauli - Köln 3-0